Trump endurvarpar tilhæfulausum „fréttum“

Verðandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump.
Verðandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump. AFP

Mörg þeirra umdeildari ummæla sem Donald Trump hefur látið falla, bæði fyrir og eftir kjör hans í embætti Bandaríkjaforseta, virðast hafa verið byggð á efni vefsíðu sem fordæmd hefur verið fyrir að hýsa samsæriskenningar og gefa út falsfréttir.

Fullyrðing Trumps fyrr í þessari viku, um að milljónir fólks hafi kosið með ólöglegum hætti í forsetakosningunum, hafði þannig áður verið kynnt í formi fréttar á vefsíðunni infowars.com. Var hún byggð á niðurstöðum rannsóknar, sem höfðu þá þegar verið hraktar af sannreyningarvefnum Snopes og fleirum.

Sagði múslima hafa fagnað 11. september

Og það var ekki í fyrsta skiptið sem Trump endurvarpaði því sem infowars hafði borið á borð. Meðan á kosningabaráttunni stóð sagði hann þannig að keppinautur sinn, Hillary Clinton, notaðist við heyrnartól í kappræðum og að múslimar í Bandaríkjunum hefðu komið saman og fagnað árásunum á tvíburaturnana 11. september 2001.

Síðunni heldur úti útvarpsmaðurinn Alex Jones, sem meðal annars er þekktur fyrir fullyrðingar sínar um að þær árásir hafi verið verk bandarísku ríkisstjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert