Goldman Sachs-stjóri fjármálaráðherra

Steven Mnuchin segist verða næsti fjármálaráðherra Bandaríkjanna.
Steven Mnuchin segist verða næsti fjármálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Steven Mnuchin, fyrrverandi yfirmaður hjá Goldman Sachs-bankanum, segir að Donald Trump hyggist skipa sig fjármálaráðherra í nýrri ríkisstjórn sinni. Mnuchin var fjármálastjóri kosningabaráttu Trump og stafaði áður sem kvikmyndaframleiðandi í Hollywood.

Í umfjöllun CNN Money um Mnuchin er hann sagður hafa gefið fé til beggja stóru flokkanna, þar á meðal til forsetaframboðs Hillary Clinton árið 2008 þegar hún tapaði í forvali Demókrataflokksins gegn Barack Obama. Hann gekk síðan til liðs við framboð Trump í maí.

Mikilvægustu málefni kosningabaráttu Trump voru að mati Mnuchin að skapa störf og tryggja þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Trump væri betri frambjóðandi í báðum málaflokkum.

Washington Post segir Mnuchin ekki hafa neina reynslu af opinberri stjórnsýslu. Hann njóti virðingar á Wall Street eftir að hafa starfað sem upplýsingastjóri Goldman Sachs til 2002. Hann stofnaði sinn eigin vogunarsjóð í kjölfarið. Lítið sé hins vegar vitað um skoðanir hans á málefnum eins og regluverki um fjármálastofnanir.

Þá hafi hann hagnast verulega á hruni húsnæðismarkaðarins í Bandaríkjunum. Hann keypti það sem eftir stóð af fjármálastofnuninni IndyMac sem hafði gengið hvað harðast fram í að veita undirmálslán árið 2009. Bankinn fékk í kjölfarið um 900 milljónir dollara í neyðaraðstoð frá ríkinu. Bankinn, sem nú heitir OneWest, var seldur í fyrra fyrir tvöfalt hærri upphæð en Mnuchin og félagar keyptu hann á.

Í Hollywood hefur Mnuchin meðal annars framleitt kvikmyndirnar Suicide Squad, American Sniper og Lego-myndina.

Mnuchin segir að Trump hafi einnig skipað milljarðamæringinn Wilbur Ross sem viðskiptaráðherra. Trump hefur staðfest hvoruga tilnefninguna opinberlega ennþá.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert