Hvetur fólk til „skynsamrar hegðunar“

Frans páfi.
Frans páfi. AFP

Frans páfi hvatti fólk í morgun til að „hegða sér skynsamlega“ til að koma í veg fyrir útbreiðslu alnæmis. Páfi tjáði sig ekki sérstaklega um hvort notkun smokka væri skynsamleg hegðun til að koma í veg fyrir smit.

Páfi sagði ennfremur að hver sá sem þjáðist af sjúkdómnum, sama hversu fátækur hann væri, ætti að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu.

Alþjóðlegi Alnæmis-dagurinn er á morgun. Páfi sagði milljónir manna lifa með sjúkdómnum en „aðeins helmingur þeirra hefði aðgang að meðferð sem væri lífsnauðsynleg,“ sagði páfi.

„Ég bið ykkur að biðja fyrir þeim og ástvinum þeirra og reyna að sjá til þess að jafnvel þeir fátækustu geti fengið viðeigandi meðferð,“ sagði páfi og bætti við:

„Ég hvet alla til að hegða sér skynsamlega til að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn dreifist enn frekar.“

Talið er að litið verði á ummæli páfa sem merki þess að eitthvað sé að slakna á andstöðu kirkjunnar gegn því að smokkurinn sé notaður sem vörn gegn HIV-smiti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert