Laug til um eigið mannrán

Lapo Elkann hefur áður ratað í fjölmiðla vegna fíkniefnanotkunnar. Nú …
Lapo Elkann hefur áður ratað í fjölmiðla vegna fíkniefnanotkunnar. Nú reyndi hann að fá fjölskyldu sína til að greiða lausnargjald vegna meints mannráns, eftir að hann hafði eytt öllu fé sínu í áfengi og eiturlyf. AFP

Einn af erfingjum Fiat bílaframleiðandans hefur nú verið sakaður um að halda því ranglega fram að sér hafi verið rænt af trans gleðikonu.

Lapo Elkann hringdi í fjölskyldu sína frá New York til að krefjast þess að hún greiddi 10.000 dollara lausnargjald til að „tryggja öryggi sitt,“ að því er AP-fréttastofan hefur eftir bandarískum embættismanni.

Lögreglumenn fundi Elkann nokkru síðar á Manhattan og telja að hann hafi skáldað upp mannránið eftir að hafa eytt öllu fé sínu í óhóflega áfengis- og fíkniefnanotkun.

Elkann er afabarn Gianni Agnelli, sem stofnaði Fiat.  Hann hefur verið handtekinn og var ákærður fyrir að hafa tilkynnt um glæp sem ekki átti sér stað og mun hann, að því er fréttavefur BBC greinir frá, koma fyrir rétt í janúar.

Elkann hafði ekki dvalið nema viku í Bandaríkjunum þegar hið meinta mannrán átti sér stað. Fyrir Bandaríkjaförina hafði Elkann greint fylgjendum sínum á Instagram frá því að hann væri að fara úr landi til að „fylgja eftir þróunarverkefnum og mörgum nýjum hugmyndum“ og að hann myndi komast í kynni við „marga áhugaverða einstaklinga“ á ferð sinni.

Bandarískir og ítalskir fjölmiðlar segja Elkann hins vegar hafa dvalið með trans-konunni í tvo daga áður en hann hringdi í fjölskyldu sína til að krefjast meiri penings. Hann fullyrti að hún hefði haldið honum í íbúð á Manhattan frá því um fimmleytið á föstudag, allt þar til lögregla handtók hann fyrir utan fjölbýlishús í New York snemma aðfararnótt sunnudag.

Elkann á engann þátt í rekstri Fiat. Hann hefur hins vegar ratað á síður ítalska fjölmiðla áður vegna fíkniefnanotkunar, m.a. eftir að farið var með hann á sjúkrahús í Turin árið 2005 vegna of stórs eiturlyfjaskammts.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert