Límdu sig fasta í ástralska þinginu

Frá mótmælum gegn meðferð stjórnvalda á hælisleitendum í Sydney. Myndin …
Frá mótmælum gegn meðferð stjórnvalda á hælisleitendum í Sydney. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. AFP

Andstæðingar umdeildra fangabúða ástralskra stjórnvalda fyrir hælisleitendur á Kyrrahafseyjum hleyptu upp þingfundi í ástralska þinginu í dag. Sumir þeirra límdu sig meðal annars fasta við handrið með ofurlími. Þingforsetinn segir þetta alvarlegustu truflun á þingfundi í tuttugu ár.

Hópur um þrjátíu mótmælenda hóf upp raust sína skömmu eftir að þingfundur hófst. Hrópaði fólkið „Lokið búðunum“ og „Hvar er siðferðislegur áttaviti ykkar?“. Þegar þingverðir reyndu að fjarlægja fólkið gripu sumir mótmælendanna á það ráð að líma sig fasta við handrið á áheyrendapöllunum. Verðirnir reyndu að losa fólkið með handsótthreinsiefni.

Fólkinu var á endanum vísað úr þingsalnum, sumum þeirra með valdi, að sögn AFP-fréttastofunnar. Hópurinn er úr samtökunum Uppljóstraraaðgerðasinnar sem telja neyðarástand ríkja vegna fangabúðanna. Í ágúst ruddust félagar úr samtökunum upp á svið í Melbourne og stöðvuðu ræðu Malcolms Turnbull forsætisráðherra.

Áströlsk stjórnvöld senda hælisleitendur sem reyna að komast til landsins sjóleiðina í fangabúðir á afskektum eyjum eins og Nauru og Manus við Papúa Nýju-Gíneu. Talsmenn flóttamanna og heilbrigðisstarfsmenn hafa lengi gagnrýnt aðbúnað hælisleitenda í fangabúðunum.

Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna sem heimsótti Ástralíu og Nauru segir að áströlsk stjórnvöld hafi sett blett á orðspor sitt í mannréttindamálum með fangabúðum. Stjórnvöld segja búðirnar aftur á móti nauðsynlegar til þess að stemma stigu við flæði fólks frá löndum eins og Afganistan, Sri Lanka og Mið-Austurlöndum þar sem margir láti lífið í hafinu á leiðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert