Pítsustaður fórnarlamb lygafrétta

Pítsastaðurinn Comet í Washington-borg sem hefur sætt árásum netníðinga.
Pítsastaðurinn Comet í Washington-borg sem hefur sætt árásum netníðinga. ljósmynd/Elizabeth Murphy/Wikipedia

Mikið hefur verið rætt um lygar í formi svonefndra gervifrétta sem dreift er í stórum stíl á netinu, ekki síst í aðdraganda forsetakosninganna vestanhafs. Pítsustaðareigandi í Washington hefur fengið líflátshótanir eftir að samsæriskenningasinnar sögðu staðinn tengjast barnaníðingshring.

Kannanir hafa bent til þess að á síðustu dögum kosningabaráttunnar í Bandaríkjunum hafi netverjar dreift meira af lyga- og áróðursfréttum en fréttum og greinum frá trúverðugum fjölmiðlum. Hafa stjórnmálaskýrendur lýst áhyggjum af því að lygarnar hafi haft veruleg áhrif á úrslit forsetakosninganna.

Ein þeirra lyga sem fór á flug fyrir kosningar átti að nafninu til rætur sínar að rekja til tölvupósta John Podesta, kosningastjóra Hillary Clinton, sem mikið var fjallað um fyrir kosningar. Samsæriskenningasinnar af hægri vængnum stukku hins vegar á vísanir í fjáröflun fyrir Clinton sem James Alefantis, eigandi Comet, vinsæls pítsastaðar í Washington-borg, stóð fyrir í tölvupóstunum.

Á vefsíðum eins og 4chan og Reddit var því haldið fram blákalt að Comet væri skálkaskjól fyrir barnaníðingshring sem tengdist stjórnmálamönnum. Þessu til „stuðnings“ túlkuðu samsæriskenningasinnarnir tákn um barnaníð sem þeir töldu sig finna í öllu sem tengdist staðnum frá málverkum af nöktu fólki á veggjunum til mynsturs á matseðlunum. Þeir héldu því jafnvel fram að nafn Alefantis væri dregið af frönsku orðunum „Ég elska börn“.

Telur árásirnar pólitíska hefnd

Í kjölfarið rigndi ógnandi skilaboðum yfir veitingastaðinn á samfélagsmiðlum.

„Fyrstu viðbrögð mín voru að það væri margt klikkað fólk þarna úti. Allir eru æstir yfir kosningunum þannig að þessu mun slota. Í staðinn fór þetta í hina áttina,“ segir Alefantis við AFP-fréttastofuna.

Áreitið hefur ágerst eftir kosningasigur Donalds Trump. Alefantis segir að fólk hóti því að koma á staðinn og gera eitthvað og segi honum að upplýsa um hvar hann feli leynileg göng undir staðnum.

Alefantis lét bæði lögregluna á staðnum og alríkislögregluna FBI vita af hótununum en lítið virðist hægt að gera. Reddit lokaði þó umræðuþræði um svonefnt „Pizzagate“ og vísaði til ítrekaðra brota notenda þar á reglum síðunnar um efni.

Árásirnar halda áfram engu að síður en Alefantis telur að raunveruleg ástæða þeirra sé pólitísk hefnd vegna stuðnings hans við Demókrataflokkinn. Hann hvetur fólk til að vera meðvitaðra á samfélagsmiðlum.

„Samfélagið verður að gera sér grein fyrir því að hægt er að nota samfélagsmiðla sem vopn. Það er auðveldlega hægt að taka þig niður eða eyðileggja með þessum árásum,“ segir hann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert