Verða að greftra eða brenna fósturleifar

Mótmæli stuðningsfólks réttinda kvenna til að ráða eigin líkama í …
Mótmæli stuðningsfólks réttinda kvenna til að ráða eigin líkama í Texas árið 2013. AFP

Heilbrigðisyfirvöld í Texas hafa gefið út reglur sem skylda læknastofur og sjúkrahús til að láta grafa eða brenna fósturleifar. Reglurnar hafa mætt mikilli andspyrnu heilbrigðisstarfsmanna og talsmanna réttinda kvenna til fóstureyðinga.

Reglurnar taka gildi 19. september en samkvæmt þeim verður sjúkrahúsum, læknastofum sem framkvæma fóstureyðingar og öðrum heilsugæslustöðvum bannað að farga fósturleifum með hefðbundnum hætti. Fram að þessu hafa fyrirtæki sem sérhæfa sig í að farga læknisfræðilegum úrgangi tekið við þeim.

Heilbrigðisnefnd Texas-ríkis segir að nýju reglurnar leiði til „aukinnar verndar heilsu og öryggis almennings“. Baráttufólk fyrir réttindum kvenna segja reglurnar hins vegar óþarfar og þær geri konum erfiðara um vik að komast í öruggar og löglegar fóstureyðingar í ríkinu, að því er kemur fram í umfjöllun Washington Post.

Gæti ratað fyrir dómstóla

Tugir þúsunda athugasemda bárust við reglurnar eftir að tillaga að þeim var fyrst lögð fram í júlí. Greg Abbott, ríkisstjóri og repúblikani, samþykkti tillöguna sem ekki þurfti að leggja fyrir ríkisþingið. Hann segist telja að ekki eigi að meðhöndla fósturleifar eins og annan úrgang frá heilbrigðisstofnunum.

Heilbrigðisstarfsmenn og útfararstofur hafa gagnrýnt kostnaðinn sem greftrun eða brennsla fósturleifanna hefði í för með sér en heilbrigðisnefndin fullyrðir að hann verði sá sami og við núverandi aðferðir við förgun þeirra.

Réttindahópar eins og Miðstöð æxlunarréttinda (Center for Reproductive Rights) íhuga bera lögmæti reglnanna undir dómstóla. Þingmenn repúblikana í ríkisþingi Texas hafa aftur á móti sagst ætla að binda reglurnar í lög þegar þingið kemur saman í janúar.

Alríkisdómstóll frestaði gildistöku laga sem sett voru í Indiana þegar Mike Pence, verðandi varaforseti Bandaríkjanna, var ríkisstjóri þar í sumar en eitt ákvæða þeirra var skylda til að greftra eða brenna fóstur. Lögin hefðu einnig bannað fóstureyðingar í tilfellum fósturgalla. Dómarinn í málinu taldi lögin stangast á við fordæmi hæstaréttardómara um rétt kvenna til að fara í fóstureyðingu og rétt hennar til friðhelgi einkalífs um ákvörðunina.

Frétt Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert