„Ekki líta niður á konur“

Frá blakmótinu í Afganistan.
Frá blakmótinu í Afganistan. AFP

Kvenkyns afganskir blakleikmenn hafa kallað eftir hugarfarsbreytingu í landinu. Blakmót kvenna var haldið í Kabúl, höfuðborg Afganistans, í dag en afar sjaldgæft er að konur keppi í íþróttum í landinu.

Sameinuðu þjóðirnar héldu mótið en það var hluti af herferð gegn kynbundnu ofbeldi í landinu. 

„Fyrst leist pabba mjög illa á að ég myndi spila blak og hann henti æfingabuxunum mínum,“ sagði Muzhgan Sadat í samtali við AFP-fréttaveituna en hún var ein þeirra sem tóku þátt í mótinu.

Hún grátbað föður sinn um að endurskoða afstöðu sína, sem hann og gerði þegar hann sá dóttur sína spila.

„Ég hvet alla til að breyta viðhorfi sínu; ekki líta niður á konur,“ bætti Sadat við.

„Kona getur gert það sama og karlmaður. Eltið drauma ykkar, aldrei gefast upp og sýnið foreldrum ykkar að kona getur verið jafngóð og karlmaður.“

Shugla Hellali, sérfræðingur í málefnum kvenna í Afganistan, sagði AFP að hún væri bjartsýn fyrir hönd kvenna í landinu.

„Fyrir tíu árum var ekkert kvennalið í blaki en margt hefur breyst á nokkrum árum,“ sagði Hellali.

Lið stilla sér upp fyrir leik.
Lið stilla sér upp fyrir leik. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert