Skammtímamarkmið innan seilingar, vafi til lengri tíma

Losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum í Evrópu fer vaxandi.
Losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum í Evrópu fer vaxandi. AFP

Aðildarríki Evrópusambandsins eru á góðri leið með að ná markmiðum sínum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa fyrir árið 2020 samkvæmt skýrslu evrópsku umhverfisstofnunarinnar. Stofnunin hefur hins vegar áhyggjur af lengri tíma markmiðum og losun frá samgöngum.

ESB setti sér það markmið að fimmtungur af heildarorkunotkun ríkjanna kæmi frá endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir árið 2020. Samkvæmt bráðabrigðaniðurstöðum umhverfisstofnunarinnar náði hlutfallið 16,4% í fyrra en það var 16% árið áður.

Þá sýna gögnin að ESB er vel á veg komið með að draga úr orkunotkun um 13% miðað við árið 2005. Í fyrra hafði hún dregist saman um 11% borið saman við viðmiðunarárið.

„Markmið ESB fyrir 2020 um endurnýjanlega orku og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda er vel innan seilingar,“ segir Hans Bruyninckx í yfirlýsingu sem fylgdi skýrslunni sem kom út í dag.

Losun frá samgöngum fer vaxandi

Þróun á öðrum sviðum eins og samgöngum veldur stofnuninni hins vegar áhyggjum. Hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum sé enn ófullnægjandi og losun gróðurhúsalofttegunda fari vaxandi.

Markmið ESB-ríkja samkvæmt Parísarsamkomulaginu er að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum um 40% fyrir árið 2030 miðað við árið 1990 og framleiða 27% af orku sinni með endurnýjanlegum orkugjöfum. Vonir þeirra standa til að hægt verði að draga úr losun um 80% fyrir árið 2050.

Umhverfisstofnunin segir að til þess að þessi markmið eigi að nást þurfi auknar aðgerðir því breytingar á regluverki hafi áhrif á tiltrú fjárfesta á endurnýjanlegum orkugjöfum og markaðslegar hindranir séu enn í veginum.

Þá telur hún að samþykkja þurfi frekari reglur um orkusparnað og ná fram verulegri breytingu á hegðun neytenda svo hægt verði að ná markmiðum um orkunýtni.

Evrópusambandið kynnti í dag nýjar áætlanir um hreina orku sem eiga að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa, draga úr sóun og niðurgreiðslum á kolaorku til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert