Tunglfari veiktist á suðurpólnum

Buzz Aldrin.
Buzz Aldrin. AFP

Buzz Aldrin, annar maðurinn til að stíga fæti á tunglið, var fluttur í skyndi af suðurpólnum vegna veikinda í dag. Aldrin var á ferð með hópi ferðamanna og var fluttur í Suðurskautsrannsóknastöð Bandaríkjanna. Hann er sagður í stöðugu ástandi undir eftirliti lækna.

Í yfirlýsingu á vefsíðu ferðaþjónustufyrirtækisins White Desert sem Aldrin, sem er 86 ára gamall, ferðaðist með sagði að heilsu tunglfarans hefði hrakað. Hann hefði því verið fluttur af pólnum í varúðarskyni.

Vísindasjóður Bandaríkjanna, sem sendi flugvélina eftir Aldrin á suðurpólinn, segir að hann verði fyrst fluttur til McMurdo-stöðvarinnar á strönd Suðurskautslandsins og svo til Nýja-Sjálands við fyrsta tækifæri.

Aldrin lenti ásamt Neil Armstrong á tunglinu með tunglferjunni Erninum 20. júlí árið 1969 en það var hluti af Apollo 11-leiðangrinum. Undanfarin ár hefur hann verið mikill talsmaður mannaðra ferða til reikistjörnunnar Mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert