Veruleg hækkun á olíuverði

Starfsmaður rússneska fyrirtækisins Gazprom vinnur við leiðslur í Norður-Rússlandi. Gert …
Starfsmaður rússneska fyrirtækisins Gazprom vinnur við leiðslur í Norður-Rússlandi. Gert er ráð fyrir að Rússar dragi úr framleiðslu sinni sem nemur 300.000 tunnum. AFP

Veruleg hækkun varð á olíuverði í gær eftir að samtök olíuframleiðsluríkja (OPEC) tilkynntu að þau hefðu náð samkomulagi um að draga úr olíuframleiðslu og lækka birgðastöðu. Verð á olíu fór upp um tíu af hundraði við tilkynninguna, en þetta er í fyrsta skipti í átta ár sem OPEC grípur til þessara aðgerða.

Mohammed Bin Saleh Al-Sada, orkumálaráðherra Katar og formaður OPEC, sagði að samkomulag hefði náðst um að minnka heildarframleiðslu OPEC ríkja um 1,2 milljónir tunna á dag frá og með 1. janúar á næsta ári. Olíuverð hefur farið lækkandi undanfarin tvö ár, en verð á hráolíu hefur lækkað um meira en helming frá 2014 vegna offramboðs á markaði.

Sádi-Arabar munu draga hvað mest úr framleiðslu sinni, eða sem nemur 500.000 tunnum. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því, að olíuframleiðsluríki utan OPEC minnki sína framleiðslu um allt að 600.000 tunnur á dag og myndu Rússar þar af minnka sína framleiðslu um 300.000 tunnur.

Á fréttavef BBC segir að Sádi-Arabía hafi verið hikandi við að sættast á að vera það ríki sem drægi hvað mest úr framleiðslunni og þá hefðu yfirvöld í Íran verið ósátt við að draga úr eigin framleiðslu þar sem ríkið væri enn að ná sér á strik eftir áralangt viðskiptabann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert