Vilja halda hryðjuverkamönnum ótímabundið

Malcolm Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu. Yfirvöld í Ástralíu geta nú haldið …
Malcolm Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu. Yfirvöld í Ástralíu geta nú haldið hryðjuverkamönnum ótímabundið. AFP

Lög sem ástralska þingið samþykkti í dag gera yfirvöldum kleift að halda hryðjuverkamönnum ótímabundið í fangelsi, jafnvel eftir að upphaflegri fangelsisrefsingu þeirra lýkur. Dómsmálaráðherrann segir yfirvöld ekki ætla að sleppa fólki sem hafi ekki tekið betrun í fangelsi.

Samkvæmt lögunum getur ríkissaksóknari farið fram á framlengda fangavist tólf mánuðum áður en henni á að ljúka. Til þess þarf hann að sannfæra hæstaréttardómara um að óviðunandi hætta sé á að viðkomandi fremji alvarlegt hryðjuverk verði honum sleppt úr haldi.

Dómsmálaráðherrann Michael Keenan segir að lögin styrki öryggisstofnanir í að halda  fólki sem hefur framið alvarleg hryðjuverk og hefur ekki hlotið betrun í fangelsi.

„Við ætlum ekki að sleppa fólki sem hefur ekki verið endurhæft í fangelsi og fer svo og skaðar landa okkar,“ segir ráðherrann.

Svipuð lög eru þegar til staðar í sumum ríkjum um kynferðisbrotamenn og hættulega ofbeldismenn.

Græningjar kusu gegn frumvarpinu í þinginu og frjálslyndi demókratinn David Leyonhjelm sömuleiðis en hann sagði að lögin græfu undan borgaralegum réttindum á óviðunandi hátt.

„Við eigum ekki að setja fólk í lífstíðarfangelsi í reynd sem hefur ekki hlotið lífstíðarfangelsisdóm,“ segir Leyonhjelm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert