Trump: Brotthvarf mun hafa afleiðingar

Donald Trump sagði frá fyrirætlunum sínum í Indiana.
Donald Trump sagði frá fyrirætlunum sínum í Indiana. AFP

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, segir að það muni hafa afleiðingar í för með sér ákveði fyrirtæki að flytja starfsemi sína frá Bandaríkjunum. 

Trump lét ummælin falla á fjöldafundi í Indiana þar sem hann sagðist enn fremur eiga heiðurinn af því að hafa bjargað 1.000 störfum hjá Carrier Corp sem hugðist flytja starfsemi sína til Mexíkó. Fyrirtækið framleiðir loftkælikerfi.

Þetta kemur fram á vef BBC.

Trump sagði að samningaviðræður við Carrier Corp væru gott dæmi um það hvernig hann myndi starfa með öðrum fyrirtækjum sem væru að íhuga að flytja starfsemi sína úr landi brott. 

„Sú staða mun koma upp þar sem þau [fyrirtækin] munu fá að vita, í fyrsta lagi, að við munum koma vel fram við þau og, í öðru lagi, að það muni hafa afleiðingar,“ sagði forsetinn. 

Hann sagði að bandarísk stjórnvöld myndu leggja háa skatta á þau fyrirtæki sem ákveði að fara annað.

Trump er nú á leið til Ohio þar sem hann mun hefja ferðalag sitt um Bandaríkin til að þakka kjósendum fyrir stuðninginn í forsetakosningunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert