Fyrsti svarti Mall of America sveinkinn

AFP

Larry nokkur Jefferson hefur brotið blað í verslunarsögu Bandaríkjanna en hann er fyrsti svarti maðurinn sem bregður sér í búning jólasveinsins í stærstu verslanamiðstöð Bandaríkjanna, Mall of America.

Jefferson var „uppgötvaður“ á jólasveinaráðstefnu í Missouri, þar sem 800 jólasveinar og eiginkonur komu saman. Jefferson skar sig úr hópnum en svartir jólasveinar eru sagðir fátíð sjón.

Á ráðstefnunni var jólasveinn að nafni Sid en hann hafði það hlutverk að finna svarta jólasvein fyrir skipuleggjendur Santa Experience, sem bjóða upp á myndatökur með jólasveininum í Mall of America.

Þetta var í fyrsta sinn í 24 ára sögu verslanamiðstöðvarinnar sem ráða átti svartan sveinka.

Jefferson hóf störf á fimmtudag. Ein kona sagðist hafa beðið þess í aldarfjórðung að sjá svartan jólasvein. Aðrar fjölskyldur óku klukkustundum saman svo börnin gætu barið sveininn svarta augum.

 

Sjálfur segir Jefferson að ákvörðun hans um að gerast jólasveinn hafi ekki eingöngu snúið að því að endurspegla eigið samfélag í búningnum. „Þetta var köllun,“ segir hann. „Þegar þú ert orðinn jólasveinn, þá verður þú alltaf jólasveinn.“

Jefferson ólst upp með ellefu systkinum og tók fyrst að sér hlutverk káta karlsins í rauða búningnum þegar faðir hans fór í bakinu. Þá var Jefferson 12 ára. Hann var í hernum í 30 ár, og þar lét hann heldur ekki á sér standa og brá sér í hlutverkið fyrir félaga sína.

Frægðin hefur bankað upp á frá því að fregnir af ráðningu hans til Mall of America bárust út. En Jefferson er ekki ókunnur höfnun. „Sum fyrirtæki eru ekki reiðubúin til að ráða svartan jólasvein eða rómanskan jólasvein. Minnesota stendur framar mörgum ríkjum hvað þetta varðar.“

Sumum börnum þykir undarlegt að sjá svartan jólasvein en Jefferson segir mikilvægt að öll börn eigi kost á því að sjá jólasvein sem líkist þeim. „Það hjálpar börnum að tengja við ástina á og anda jólanna,“ segir sveinninn káti.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa; fullbókað var í allar myndatökur með jólasveininum Larry um helgina.

Washington Post sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert