Shkreli hæðist að afreki menntaskólanema

Martin Shkreli varð einn óvinsælasti maður jarðar þegar hann hækkaði …
Martin Shkreli varð einn óvinsælasti maður jarðar þegar hann hækkaði verð á lífsnauðsynlegu lyfi um 5.000% á einu bretti. AFP

Afrek ástralskra menntaskólanema sem bjuggu til ónæmislyf á ódýran hátt hefur vakið athygli um allan heim. Martin Shkreli sem ávann sér fyrirlitningu margra með því að hækka verð á lyfinu um 5.000% er hins vegar ekki eins hrifinn og hæddist að námsmönnunum á Twitter.

Menntaskólanemunum tókst að búa til pyrimehtamine, virka efnið í lyfinu Daraprim sem Shkreli snarhækkaði verðið á þegar lyfjafyrirtæki hans keypti réttinn á framleiðslu lyfsins í fyrra. Lyfið er notað til að meðhöndla sjúklinga með mjög veikt ónæmiskerfi, til dæmis þeirra sem eru smitaðir af HIV-veirunni, og er sagt lífsnauðsynlegt.

Hvatning þeirra til að endurskapa efnið var verðhækkun Shkreli sem var mörgum talin algerlega siðlaus. Nutu þeir aðstoðar efnafræðinga við Háskólann í Sydney.

„Starfsmanna- og tækjakostnaður? Ég vissi ekki að maður gæti fengið eðlisefnafræðinga til þess að vinna ókeypis? Ég ætti að nota menntaskólanema til að framleiða lyfin mín!“ skrifaði Shkreli á Twitter í kaldhæðnislegum tón um afrek unglinganna.

Frétt Mbl.is: Hataði lyfjaforstjórinn handtekinn

Í öðrum tístum dró Shkreli sannleiksgildi fréttanna af menntaskólanemunum í efa.

„Hvernig vituð við að þeir gerðu þetta? Vegna þess að þeir sögðu það?“ skrifaði hann.

Eftir að hann fékk á sig harða gagnrýndi fyrir tístin dró Shkreli hins vegar í land og lofaði nemendurna í myndbandi sem hann birti á Youtube.

„Við ættum að óska þessum nemendum til hamingju með áhuga þeirra á efnafræði og að vera spennt yfir því sem er í vændum á raungreinamiðaðri 21. öldinni,“ sagði Shkreli sem var handtekinn vegna gruns um verðbréfasvindl í desember í fyrra. Hann er nú laus gegn tryggingu á meðan hann bíður þess að réttað verði yfir honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert