Skák sýnd í stað fótbolta á börum

Magnus Carlsen með uppáhalds taflmanninn sinn, biskupinn. Carlsen staðfesti yfirburði …
Magnus Carlsen með uppáhalds taflmanninn sinn, biskupinn. Carlsen staðfesti yfirburði sína í skákheiminum í vikunni. AFP

Heimsmeistaratitlar Norðmannsins Magnusar Carlsen í skák hafa breytt skáksenunni í Noregi. Þegar hann varð heimsmeistari í fyrsta skipti árið 2013 seldust taflborð upp í verslunum og síðan þá hafa sjónvarpsstöðvar sett skákþætti á dagskrá auk þess sem yngra fólk sýnir orðið áhuga á því að tefla.

Carlsen, sem er 26 ára, var krýndur heimsmeistari í skák í þriðja sinn á miðvikudagskvöldið. Eins og áður segir varð hann fyrst heimsmeistari 2013 þegar hann vann Indverjan Viswanathan Anand og varði titilinn ári seinna í öðru einvígi við hann. Nú hafði hann betur gegn Rússanum Sergjei Karjakin sem er jafnaldri hans, báðir fæddir 1990. Sigur Carlsens í ár þótti óvenjusætur. Í fyrri heimsmeistaraeinvígjunum voru yfirburðir Carlsens ljósir en nú var frekar jafnt á með honum og Karjakin, það þykir líka sætara að vinna Rússa en Indverja, því skákin er hálfgerð þjóðaríþrótt í Rússlandi.

Ekki alveg húh!-fögnuður

Mikil gleði braust út í Noregi í fyrrakvöld þegar ljóst var að Carlson hafði betur og kæmi með heimsmeistaratitilinn heim í þriðja sinn.

„Þetta er örugglega jafngaman fyrir Norðmenn og var fyrir Íslendinga árið 1972 þó að það hafi enginn Íslendingur verið með þá,“ segir Gunnar Davíðsson sem býr í Tromsö í Noregi og vísar þar til skákæðisins sem greip landann eftir heimsmeistaraeinvígi Spasskíjs og Fischers í Laugardalshöll 1972.

Gunnar segir að í Noregi hafi fréttatímar verið teknir af dagskrá í fyrrakvöld til að sýna beint frá úrslitaviðureign Carlsens og Karjakins, fólk sem hafi engan áhuga á skák sé allt í einu farið að fylgjast með henni og þá séu sportbarir farnir að sýna skák í staðinn fyrir fótbolta. „Það var eitthvað um það að fólk safnaðist saman á börum til að horfa á viðureign Carlsens og sumir tóku sér frí í vinnunni daginn eftir til að geta fagnað almennilega,“ segir Gunnar. Spurður hvort stemningin sé eitthvað svipuð og þegar Ísland tók þátt á EM í fótbolta hlær Gunnar og svarar: „Það var kannski ekki alveg húh! en þetta fær heilmikla athygli og það er mikil stemning hér. Noregur hefur ekki verið mikil skákþjóð þó að hún hafi átt Magnus lengi. En ég held að athyglin hafi aldrei verið jafn mikil og núna þegar hann hefur heimsmeistaratitil. Nú er allt í einu farið að sýna frá hraðskákmótum í sjónvarpi og þá eru skáksjónvarpsþættir komnir á dagskrá sem hefur ekki þekkst áður. Í þeim er bein lýsing frá skákmótum og skoðun á leikjum fyrirfram og eftir á og spátölva reiknar út líkurnar á úrslitum,“ segir Gunnar og rifjar upp að hann muni eftir skáklýsingum í Íslensku sjónvarpi eftir 1972.

Stuðningsmenn Magnusar Carlsen fögnuðu sigri hans á miðvikudagskvöldið. Heimsmeistaraeinvígið fór …
Stuðningsmenn Magnusar Carlsen fögnuðu sigri hans á miðvikudagskvöldið. Heimsmeistaraeinvígið fór fram í New York að þessu sinni. AFP

Ekki bara fyrir eldra fólk

Carlsen kom tvisvar til Íslands í fyrra, fyrst á Reykjavíkurskákmótið í mars og svo aftur á Evrópumót landsliða í skák í nóvember.

Cecilie Landsverk, sendiherra Noregs á Íslandi, hitti Carlsen í þeim heimsóknum og segir að hann hafi haft mikil áhrif á skákíþróttina í Noregi og uppsveiflu í henni.

„Þegar hann varð fyrst heimsmeistari 2013 seldust taflborð upp í Noregi, það var ekki til nóg af taflborðum fyrir alla foreldrana sem ætluðu að gefa börnum sínum þau í jólagjöf,“ segir Landsverk.

Spurð hvernig Carlsen hafi komið henni fyrir sjónir þegar hann heimsótti Ísland segir Landsverk að hann sé heillandi og hafi persónutöfra, þá sé hann skapandi persóna sem sjáist líka í því hvernig hann teflir. Hún er á því að þessi persónueinkenni Carlsens séu meðal annars ástæðan fyrir því að skák sé orðin vinsæl meðal ungs fólks í Noregi, það skipti miklu máli fyrir það að sjá að skák sé ekki bara fyrir eldra fólk. Landsverk fylgdist með úrslitaviðureigninni eins og flestir í sendiráðinu. „Það leit ekkert endilega út fyrir að hann myndi vinna en svo lauk hann þessu svo frábærlega, þetta var einstakur lokaleikur,“ segir hún.

Frétt mbl.is: Virkilega snotur endir hjá Carlsen

Frétt mbl.is: Carlsen heims­meist­ari í skák

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert