Trump skipar Mattis sem varnarmálaráðherra

Donald Trump ásamt James Mattis, næsta varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Trump hefur …
Donald Trump ásamt James Mattis, næsta varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Trump hefur lýst Mattis sem „hershöfðingja hershöfðingjanna“. AFP

James Mattis verður næsti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Þetta tilkynnti Donald Trump, nýkjörinn forseti landsins, á fundi með stuðningsmönnum sínum í Ohio í gær.

„Hann er sá besti,“ sagði Trump þegar hann tilkynnti ráðningu Mattis, sem hefur borið viðurnefnið „Mad Dog“ eða „Óði hundur“ frá því hann var í hernum.

Mattis hefur verið óspar á gagnrýni á stefnu stjórnar Barack Obama, núverandi Bandaríkjaforseta, í málefnum Mið-Austurlanda og þá sérstaklega hvað Íran varðar. Hefur hann lýst Íran sem „lífsseigustu ógn við stöðugleika og frið í Mið-Austurlöndum,“ að því er fréttavefur BBC greinir frá.

Trump tilkynnti ráðningu Mattis við upphaf ferðar sem hann fer nú um Bandaríkin til að þakka stuðninginn í forsetakosningum. Bandarískir fjölmiðlar höfðu áður greint frá því að líklegt væri talið að Mattis yrði fyrir valinu, en að ekki yrði tilkynnt um ráðningu varnarmálaráðherra fyrr en í næstu viku.

Trump ákvað hins vegar að bíða ekki svo lengi með tilkynninguna. „Við ætlum að skipa „Mad Dog“ Mattis sem varnarmálaráðherra,“ sagði Trump við fundargesti. „Hann er sá sem líkist hvað mest George Patton hershöfðingja.“

Patton var foringi í bandaríska hernum í heimsstyrjöldinni síðari.

Trump hefur áður lýst Mattis sem „hershöfðingja hershöfðingjanna“.

Matt­is, sem er 66 ára, hætti störf­um árið 2013 eft­ir rúm­lega 40 ára starf. Hann þótti standa sig vel í Íraks­stríðinu, sér­stak­lega í bar­dag­an­um um Fallujah árið 2004. 

Til að Matt­is geti tekið við stöðunni þarf þó að leggja fram laga­frum­varp sem sneiðir hjá banda­rísk­um lög­um sem kveða á um að þeir sem hafa sinnt skyldu­störf­um í hern­um síðustu sjö ár, megi ekki gegna embætti varn­ar­málaráðherra.  

Þetta var síðast gert árið 1950 þegar Geor­ge C. Mars­hall tók við embætt­inu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert