Kínverjar ósáttir við símtal Trumps

Það gustar um Donald Trump, nýkjörinn forseta Bandaríkjanna.
Það gustar um Donald Trump, nýkjörinn forseta Bandaríkjanna. AFP

Utanríkisráðuneytið í Kína hefur lagt fram formlega kvörtun vegna símtals sem Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, átti við forseta Taívans. Þetta kemur fram á vef BBC.

Kínversk stjórnvöld líta á Taívan sem uppreisnarhérað og árið 1979 ákváðu bandarísk stjórnvöld að slíta formlega stjórnmálasambandi við landið. 

Trump ræddi nýverið í síma við Tsai Ing-wen, forseta Taívans, og að sögn talsmanna Trumps ræddu þau um efnahags-, öryggis- og stjórnmál. Trump hefur sagt að forsetinn hafi hringt í sig til að óska sér til hamingju með sigurinn í forsetakosningunum í síðasta mánuði. 

Kínversk yfirvöld segjast hafa komið kvörtun á framfæri við yfirvöld í Washington í Bandaríkjunum. 

Kínverska ríkisfréttastofan Xinhua segir að Kína hafi hvatt Bandaríkin til að taka á málinu af festu og koma þannig í veg fyrir að atvikið hafi slæm áhrif á samskipti ríkjanna. 

Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, hafði áður látið hafa eftir sér að atvikið væri „smásálarleg brella“ af hálfu Taívan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert