Óttast að 40 hafi farist í eldsvoðanum

Óttast er að um fjörutíu manns hafi farist í eldsvoða í rave-teiti sem var haldin í vöruhúsi skammt frá San Francisco í Kaliforníu. Þegar hefur verið staðfest að níu hafi farist en talið er að mun fleiri lík sé að finna á staðnum.

Frétt mbl.is: Níu fórust í eldsvoða og 13 saknað

Að sögn Teresu Deloach Reed, slökkviliðsstjóra í Oakland, er talið að flestir sem létust hafi verið staddir á efri hæð vöruhússins sem kallast Draugaskip Oakland.

„Eldurinn hlýtur að hafa farið mjög hratt yfir,“ sagði Reed við fréttamenn.

Ekki er vitað hvað olli eldsvoðanum en um 50 til 100 manns voru í teitinni.

Slökkviliðið hefur ekki getað farið inn og skoðað ástandið í húsinu almennilega en um leið og fleiri slökkviliðsmenn fara þangað inn er búist við að tala látinna hækki.

Talið er að flestir þeirra sem voru í teitinni hafi verið á þrítugs- og fertugsaldri.

Breytingar sem voru gerðar á vöruhúsinu gerðu það að verkum að erfitt var að sleppa frá eldsvoðanum.

„Það var engin alvöru inngöngu- eða útgönguleið,“ sagði lögreglustjórinn Ray Kelly.

Vöruhúsið þar sem eldsvoðinn varð.
Vöruhúsið þar sem eldsvoðinn varð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert