Stór hluti Aleppo á valdi hersins

Um 250.000 íbúar komast ekki út úr borginni vegna átakanna. …
Um 250.000 íbúar komast ekki út úr borginni vegna átakanna. Til að setja þetta í samhengi, þá eru íbúar höfuðborgarsvæðisins á Íslandi rúmlega 210.000 talsins. AFP

Sýrlenski stjórnarherinn hefur náð stórum svæðum í borginni Aleppo á sitt vald, en svæðin voru áður undir stjórn uppreisnarmanna. Sýrlenska mannréttindavaktin segir að herinn hafi náð Tariq al-Bab-hverfinu á sitt vald í gær, en með því hefur opnast leið á milli svæða sem stjórnarherinn hefur á sínu valdi og Aleppo-flugvallar.

Þetta þýðir að uppreisnarmenn hafa misst um tvo þriðju hluta þeirra svæða sem þeir réðu yfir í borginni, en stjórnarherinn hefur sótt fram af krafti undanfarnar þrjár vikur. 

Um 250.000 almennir borgarar sitja hins vegar enn fastir í borginni. Tugþúsundir hafa misst heimili sín. 

Sameinuðu þjóðirnar greindu frá því í vikunni að ástandið í Aleppo sé orðið svo alvarlegt að læknar framkvæmi nú aðgerðir án deyfingar. 

Að minnsta kosti 300 hafa fallið í átökum eftir að sýrlenski stjórnarherinn hóf sókn sína inn í austurhluta Aleppo. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert