Trump fer gegn utanríkisstefnu Bandaríkjanna

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur farið gegn 37 ára gamalli utanríkisstefnu bandarískra yfirvalda með því að ræða beint við forseta Taívans. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1979 sem Bandaríkjaforseti gerir þetta, en þá slitu Bandaríkin stjórnmálasambandi við Taívan.

Nánustu ráðgjafar Trumps segja að hann og Tsai Ing-wen, forseti Taívans, hafi rætt í síma um náin tengsl á sviði efnahags-, öryggis- og stjórnmála.

Fram kemur á vef BBC að það sé líklegt að símtalið muni reita kínversk stjórnvöld til reiði, en kínversk stjórnvöld hafa litið á Taívan sem uppreisnarhérað og hafa hótað stríði lýsi eyríkið yfir fullkomnu sjálfstæði. 

Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, er hins vegar sagður hafa gert lítið úr þessu símtali. Kallað þetta „smásálarlega brellu“ taívanskra stjórnvalda.

Trump greindi frá samskiptunum á Twitter. Þar sagði hann að Tsai hefði hringt í sig til að óska sér til hamingju með sigurinn í bandarísku forsetakosningunum. 

Ráðgjafar Trumps segja að Trump hefði sömuleiðis óskað Tsai til hamingju með að hafa verið kjörinn forseti Taívans í kosningum sem fóru fram í janúar á þessu ári. 

Fram kemur á vef BBC að það sé afar óvenjulegt að Bandaríkjaforseti ræði með beinum hætti við leiðtoga Taívans. 

Í kjölfar þess að fjölmiðlar fóru að benda á að samskiptin gætu mögulega orðið til þess að reita Kínverja til reiði birti Trump önnur skilaboð á Twitter. 

„Það er athyglisvert hvernig Bandaríkin geta selt Taívan hergögn sem eru metin á marga milljarða Bandaríkjadala en ég á ekki að geta tekið við símtali þar sem mér er óskað til hamingju.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert