Nauðlenti á Azoreyjum

Það getur ýmislegt komið fyrir í háloftunum.
Það getur ýmislegt komið fyrir í háloftunum. AFP

Flugstjóri farþegaþotu Qatar Airways þurfti að nauðlenda vélinni á portúgölskum herflugvelli á Azoreyjum eftir að þotan hafði lent í mikilli ókyrrð með þeim afleiðingum að farþegar slösuðust.

Farþegaþotan, sem er af gerðinni Boeing 777, var að fljúga frá Washington í Bandaríkjunum til Doha í Katar þegar þetta gerðist. Hún lenti hins vegar í mikilli ókyrrð yfir Atlantshafi og því óskaði flugmaðurinn eftir að fá að neyðarlenda á eyjunni sem tilheyrir Portúgal.

Yfirvöld og sjónarvottar segja að vélin hafi lækkað flugið hratt með þeim afleiðingum að nokkrir farþegar féllu úr sætum sínum. Einn farþegi fékk fyrir hjartað. 

Talsmaður herflugvallarins segir að farþegarnir hafi verið fluttir á hótel en búist er við að þeir muni halda för sinni áfram í fyrramálið. Hann segir enn fremur, að enginn hafi hlotið alvarlega áverka. 

Alls voru þrír fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. 

Azad Essa, sem er fréttamaður Al Jazeera, var um borð í vélinni. Hann greindi frá atvikinu á Twitter. „Það blæðir úr nokkrum farþegum sem köstuðust til, lentu í þakinu og lentu á ganginum eftir að vélin missti skyndilega hæð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert