Þrjátíu látnir í Oakland

Margir hafa minnst þeirra sem létust í brunanum.
Margir hafa minnst þeirra sem létust í brunanum. AFP

Tala látinna eftir eldsvoða sem varð í vöruhúsi í Oakland í Kaliforníu á föstudag hefur hækkað upp í 30 að sögn yfirvalda. Rannsókn hefur staðið yfir alla helgina og hefur rannsakendum tekist að skoða bygginguna betur í dag.

Lögregluvarðstjórinn Ray Kelly greindi fjölmiðlum frá því í kvöld að fleiri lík hafi fundist í húsinu. Yfirvöld hafa hins vegar aðeins náð að rannsaka lítinn hluta hússins, sem var tveggja hæða, en það gjöreyðilagðist í brunanum. 

Kelly segir að rannsókninni sé ekki lokið. Unnið sé að því að kanna hvern krók og kima og við það hafi fleiri lík fundist.

Óttast er að tala látinna muni hækka enn frekar og verði mögulega í kringum 40. 

Listamenn og námsmenn bjuggu í húsinu sem hafði verið breytt í eins konar listamiðju. Húsið var hins vegar ekki samþykkt sem íbúðarhúsnæði. 

Tónleikar fóru fram í húsinu á föstudag þegar eldurinn kviknaði og voru á bilinu 50-100 manns í húsinu. Tónleikarnir fóru fram án leyfis. 

Eldsupptök eru enn ókunn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert