Setja spurningarmerki við öryggismál

Lögregla og slökkvilið hafa sett spurningarmerki við öryggismál byggingar þar sem að minnsta kosti 24 létust eftir stórbruna í Oakland í Kaliforníu. Talið er að tala látinna eigi eftir að hækka, en óttast er að hátt í 40 hafi látist. 

Byggingin er gamalt vöruhús, sem er þekkt undir nafninu Draugaskipið (e. Ghost Ship), en húsinu hafði verið breytt í listasmiðju. Eldur braust út þegar ungmenni voru að skemmta sér á tónleikum.

Teresa Deloche-Reed, slökkviliðsstjórinn í Oakland, segir að engir vatnsúðarar hafi verið í byggingunni. Þá hafi verið gríðarlega mikið af alls kyns munum og húsgögnum í húsinu. Þá hafi engir brunaboðar verið í húsinu. Þetta kemur fram á vef BBC.

Lögreglan segir að eina leiðin upp á aðra hæð hússins hafi verið stigi sem hafi verið búinn til úr vörubrettum úr tré.

Margir hafa heimsótt svæðið til að minnast þeirra sem létust.
Margir hafa heimsótt svæðið til að minnast þeirra sem létust. AFP

Slökkviliðsstjórinn segir að á bilinu 50-100 manns hafi verið í teitinni þegar eldurinn kviknaði á föstudagskvöld. Elektroníska danshljómsveitin Golden Donna hélt tónleika á staðnum ásamt sex öðrum sveitum þegar húsið fór að loga. 

Þak hússins gaf sig í brunanum en það féll á aðra hæð hússins, en hluti gólfsins gaf sig í framhaldinu og féll niður á jarðhæðina. 

Maður, sem er sagður hafa átt þátt í að koma upp listasmiðjunni, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir færslu sem hann setti á Facebook. Hann sagði að allt sem hann hefði unnið að svo lengi sé nú farið, en það sem hefur farið fyrir brjóstið á fólki er sú staðreynd að hann minntist ekki fólksins sem lést í brunanum. 

Eyðileggingin var algjör.
Eyðileggingin var algjör. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert