33 látnir í Oakland-brunanum

Oaklandbúar minnast þeirra sem létust í eldsvoðanum í vöruhúsinu. Tala …
Oaklandbúar minnast þeirra sem létust í eldsvoðanum í vöruhúsinu. Tala látinna er nú komin upp í 33, en yfirvöld óttast að hún eigi eftir að hækka enn frekar. AFP

Tala látinna vegna eldsvoðans í vöruhúsi í Oakland er nú komin upp í 33 að sögn yfirvalda, sem hafa nú beðið ættingja þeirra sem saknað er að varðveita DNA-sýni til að auðvelda að bera kennsl á hina látnu.

Rann­sókn hef­ur staðið yfir frá því á laugardag. Enn er þó ekki búið að rannsaka nema helming byggingarinnar, sem var tveggja hæða og gjöreyðilagðist í brunanum.

Ekki er enn vitað hversu margir fórust í brunanum. „Við erum búin undir það versta en vonum það besta með tilliti til þess hversu mörg lík við munum finna,“ hefur AFP-fréttastofan eftir lögregluvarðstjóranum Ray Kelly.

Kvaðst hann gera ráð fyrir að leitin eigi eftir að taka nokkra daga til viðbótar, en talið er að á milli 50 og 100 manns hafi verið á tónleikum í húsinu, sem var notað sem listasmiðja, þegar eldurinn kom upp.

Yfirvöld biðja nú ættingja þeirra sem saknað er að geyma hár- og tannbursta til að auðvelda rannsakendum að bera kennsl á hina látnu. „Við munum óska eftir að fá þá afhenta ef þörf reynist á,“ sagði Melanie Ditzenberger hjá embætti réttarlæknis.

Þeim sem voru á tóneikunum, en komust lifandi út, hefur orðið tíðrætt um hve hratt eldurinn breiddist út. Ljósmyndarinn Chris Nechodom, sem var á tónleikunum, sagði fólk fyrst hafa talið reykinn berast frá reykvél. „En svo varð hann þykkari,“ sagði hann. „Þetta gerðist allt á nokkrum sekúndum. Þá var fólk farið að hlaupa um í örvæntingu og hrópa „eldur““.

Eldsupptök eru enn ókunn, en borgarstjóri Oakland, Libby Schaaf, segir embætti saksóknara engu að síður einnig hafa hafið rannsókn á málinu til að halda öllum möguleikum opnum.

„Umfang þessa harmleiks er mjög mikið,“ sagði hann. „Það þarf að taka skýrslur af mörgum og við  erum í því ferli núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert