Dylan sendir Nóbelsakademíunni ræðu

Bob Dylan hefur sent Nóbelsakademíunni ræðu sem á að lesa …
Bob Dylan hefur sent Nóbelsakademíunni ræðu sem á að lesa við verðlaunaafhendinguna. AFP

Bob Dylan, sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels þetta árið, hefur sent sænsku Nóbelsakademíunni ræðu sem á að lesa fyrir hans hönd við afhendingu Nóbelsverðlaunanna næstkomandi laugardag.

Dylan hafði áður greint frá því að hann gæti ekki verið viðstaddur athöfnina vegna fyrri skuldbindinga. Tónlistarmaðurinn tjáði sig ekki svo vikum skipti um þá ákvörðun dómnefndar að veita honum verðlaunin og voru lengi uppi efasemdir um að hann ætlaði að taka við verðlaunum.

Frétt mbl.is: Dylan líklega með tónleika í Stokkhólmi

„Bob Dylan, Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum þetta árið, mun ekki taka þátt í viðburðum Nóbelsvikunnar en hann hefur sent frá sér ræðu sem verður lesin upp við hátíðarkvöldverðinn,“ segir í yfirlýsingu frá Nóbelsakademíunni. Tónlistarkonan Patti Smith mun flytja lag Dylans, „A Hard Rain‘s A-Gonna Fall“, við afhendinguna.

Ræðan og flutningur Smith á laginu mun þó ekki duga, því Dylan líkt og öðrum nóbelsverðlaunahöfum er skylt að flytja fyrirlestur. Líkt og aðrir þeir sem hlotið hafa Nóbelinn má hann hins vegar velja bæði stað og stund.

Dylan er ekki eini Nóbelsverðlaunahafinn sem hefur verið fjarverandi við verðlaunaafhendinguna. Þannig var Doris Lessing fjarverandi sökum aldurs, Harold Pinter lá á sjúkrahúsi þegar verðlaunin voru afhent og þá þjáist Elfriede Jelinek af félagsfælni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert