Leita að braki MH370 á strönd Madagaskar

AFP

Fjölskyldur þeirra sem voru um borð í malasísku þotunni, sem hvarf á leið frá Kuala Lumpur til Peking 8. mars 2014, ætla að hefja leit á eigin vegum á strönd Madagaskar í vikunni í þeirri von að finna brak úr þotunni. Þetta kemur fram á vef Guardian.

Þota Malaysia Airlines, flug MH370, hvarf af ratsjám með 239 farþega og áhöfn um borð, og hefur ekkert spurst til vélarinnar síðan þá.

Fjölskyldurnar eru afar ósáttar við yfirvöld í Malasíu og segja lítið gert til þess að reyna að finna brak úr þotunni sem gæti leyst úr ráðgátunni um hvað gerðist þegar vélin hvarf. Enn er leitað á suðurhluta Indlandshafs að einhverju sem gæti tengst flugvélinni en margir telja að of mikið sé einblínt á það svæði í stað þess að leita víðar á Indlandshafi.

Hafa ættingjar því dreift bréfum með myndum af mögulegu braki úr þotunni og með fylgja leiðbeiningar um hvernig eigi að snúa sér ef fólk rekst á slíkt brak á ströndinni.

Frétt mbl.is: Flug MH370 var stjórnlaust

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert