Mótmælti fyrir utan háhýsi Trumps

Jill Stein ásamt stuðningsmönnum í New York í dag.
Jill Stein ásamt stuðningsmönnum í New York í dag. AFP

Fyrrverandi forsetaframbjóðandi Græningjaflokksins í Bandaríkjunum, Jill Stein, mætti fyrir utan háhýsi Donalds Trump, verðandi forseta landsins, í New York í dag ásamt tuttugu stuðningsmönnum sínum til þess að leggja áherslu á kröfu hennar um að endurtalning fari fram vegna forsetakosninganna sem fram fóru 8. nóvember.

Fram kemur í frétt AFP að Stein hafi farið fyrir herferð sem krefst þess að talið verði aftur í ríkjunum Michigan, Pennsylvania og Wisconsin. Demókratar hafa sögulega verið sterkir í ríkjunum en Trump sigraði frambjóðanda Demókrata, Hillary Clinton, í þeim. Sérfræðingar segja að endurtalning hefði engin áhrif á útkomuna en Stein segir endurtalningar mikilvæga upp á vinnubrögðin í kringum forsetakosningar í framtíðinni.

Stein hefur boðist til þess að fjármagna endurtalningarnar en talið er að þær myndu kosta 9,5 milljónir dollara. Stein segist þegar hafa safnað 7,2 milljónum frá rúmlega 130 þúsund einstaklingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert