Skyndikosningar taldar ólíklegar

Matteo Renzi mun hverfa úr embætti forsætisráðherra eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Matteo Renzi mun hverfa úr embætti forsætisráðherra eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. AFP

Óvinsældir Matteo Renzi, fráfarandi forsætisráðherra Ítalíu, og efnahagsástandið í landinu er sagt á meðal ástæðna þess að meirihluti Ítala hafnaði stjórnarskrárbreytingum sem Renzi hafði veðjað pólitísku lífi sínu á í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. Óljóst er hvert framhaldið verður næstu daga og vikur.

Um 60% Ítala höfnuðu tillögu ríkisstjórnar Renzi að breytingum á stjórnarskránni. Þær miðuðust að því að styrkja framkvæmdavaldið á kostnað öldungadeildar þingsins. Niðurstöðunni hefur verið lýst sem öðrum sigri uppreisnarafla gegn ríkjandi kerfi líkt og Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslan og kjör Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna áður.

Frétt Mbl.is: Grillo krefst kosninga

Stjórnarandstæðingar sögðu breytingarnar færa forsætisráðherranum of mikið vald og börðust gegn þeim, þar á meðal Fimmstjörnuhreyfing popúlistans Beppe Grillo og Áfram Ítalía, flokkur Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra.

Andstaðan meiri þar sem atvinnuleysi er mest

Fleira er þó sagt spila inn í. Renzi hafði átt undir högg að sækja fyrir. Sumir landsmenn sökuðu hann um að vera í liði með yfirstjórn Evrópusambandsins í Brussel, auðjöfrum og bankakerfinu. Þá var honum talið hafa mistekist að fá önnur aðildarríki sambandsins til að taka þátt í móttöku flóttamanna til Evrópu en fjöldi þeirra kemur fyrst til Ítalíu.

Ekki var nóg með það heldur var Renzi sakaður um að hafa ekki tekist að rífa upp staðnaðan efnahag Ítalíu og draga úr atvinnuleysi sem hefur verið á bilinu 11,4 til 11,7% síðustu fimmtán mánuðina.

Frétt Mbl.is: Ítalir hafna stjórnarskrárbreytingum

„Þeir sem kusu „nei“ voru fátækar miðstéttarfjölskyldur sem hafa orðið fyrir barðinu á efnahagsþrengingunum án von um velsæld eða velferð barnanna þeirra eða barnabarna og atvinnulausra ungmenna,“ skrifar Maurizio Molinari í leiðara dagblaðsins La Stampa.

Til marks um þetta var hlutfall þeirra sem höfnuðu stjórnarskrárbreytingunum enn hærra á þeim svæðum þar sem atvinnuleysi er mest.

„Ég segi nei,“ letrað á kassa á fundi Fimmstjörnuhreyfingarinnar.
„Ég segi nei,“ letrað á kassa á fundi Fimmstjörnuhreyfingarinnar. AFP

Skyndikosningar taldar ólíklegar

Búist er við því að Renzi afhendi Sergio Mattarella, forseta Ítalíu, afsagnarbréf sitt eftir síðasta fund ríkisstjórnar hans. Í framhaldinu boðar forsetinn líklega flokksformenn til sín til að kanna hvort nýr stjórnarmeirihluti sé í spilunum.

Þrátt fyrir að stjórnarandstæðingar eins og Grillo hafi þegar krafist þess að boðað verði til kosninga hið fyrsta telja stjórnmálaskýrendur ólíklegt að sú verði raunin.

Stjórn Renzi samþykkti breytingar á kosningalögum sem áttu að virka samhliða stjórnarskrárbreytingunum. Samkvæmt þeim fær sá flokkur sem nær flestum atkvæðum í þingkosningum sjálfkrafa flest þingsæti.  Nú þegar stjórnarskrárbreytingunum hefur verið hafnað vilja flokkarnir að kosningalögunum verði breytt aftur.

Frétt Mbl.is: Renzi mun segja af sér 

Þar takast á ólíkir hagsmunir. Fimmstjörnuhreyfing Grillo vill að kosið verði sem fyrst á meðan nýju kosningalögin eru í gildi þrátt fyrir að hann hafi gagnrýnt þau harkalega sem fasískt valdarán enda mælist flokkurinn með sterka stöðu í skoðanakönnunum.

Lýðræðisflokkur Renzi og Áfram Ítalía hafa hins vegar hagsmuna að gæta í að breyta kosningalögunum áður en gengið verður til þingkosninga. Flokkur Berlusconi myndi til að mynda missa öll áhrif ef kosið yrði samkvæmt nýju kosningalögunum. Standi flokkarnir saman er líklegt að þeim takist að koma í veg fyrir að boðað verði strax til kosninga.

Silvio Berlusconi er einn stjórnmálaleiðtoganna sem forseti Ítalíu mun líkast …
Silvio Berlusconi er einn stjórnmálaleiðtoganna sem forseti Ítalíu mun líkast til kalla á sinn fund til að ræða framhaldið. AFP

Strangar kröfur fyrir úrgöngu úr evrunni

Næstu þingkosningar á Ítalíu eiga ekki að fara fram fyrr en vorið 2018. Mögulegt er talið að Mattarella feli Lýðræðisflokknum að mynda starfsstjórn sem starfi þangað til. Í því tilfelli er fjármálaráðherrann Pier Carlo Padoan talinn líklegastur til að leiða nýja ríkisstjórn. Einnig gæti Renzi farið fyrir starfsstjórn þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð.

Mikið hefur verið rætt um andúð Fimmstjörnuhreyfingarinnar og öfgahægriflokksins Norðurbandalagsins á evrunni og hugmyndum liðsmanna þeirra um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Ítala að myntbandalaginu. Það yrði þó enginn hægðarleikur.

Til þess þyrfti stjórnarskrárbreytingu sem krefðist aukins meirihluta í báðum deildum þingsins. Ríkisstjórn sem hefði úrgöngu úr myntbandalaginu á stefnuskránni þyrfti líklega að sigra í þjóðaratkvæðagreiðslu um úrgöngu til viðbótar. Breska blaðið The Guardian segir að jafnvel þá gæti stjórnlagadómstóll hafnað slíkri tillögu.

Umfjöllun BBC

Umfjöllun The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert