Valls boðar forsetaframboð

Manuel Valls.
Manuel Valls. AFP

Forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, mun í dag tilkynna um að hann sækist eftir því að verða fulltrúi Sósíalistaflokksins í komandi forsetakosningum. AFP fréttastofan hefur þetta eftir heimildarmönnum sem eru nátengdir framboði Valls.

Skrifstofa forsætisráðherra hefur aðeins tilkynnt um að hann muni gefa yfirlýsingu klukkan 18:30 að frönskum tíma, sem er 17:30 að íslenskum tíma. Þrátt fyrir að ekki komi fram í tilkynningu hvert sé tilefnið þá hafa flestir vænst þessa frá því að forseti landsins, François Hollande, greindi frá því í síðustu viku að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri. Hollande nýtur þess vafasama heiðurs að vera óvinsælasti forseti Frakklands sem sögur fara af. Hollande, sem er sósíalisti, var kjörinn forseti árið 2012 og felldi þá Nicolas Sarkozy, sem er repúblikani, úr embætti forseta. Sarkozy sóttist eftir því að vera fulltrúi repúblikana nú en hafnaði í þriðja sæti í prófkjörinu. François Fillon verður hins vegar frambjóðandi repúblikana og Marine Le Pen, frambjóðandi Front National. Emmanuel Macron er síðan frambjóðandi En Marce. 

Sósíalistar munu halda forval í janúar þar sem flokkurinn velur sér frambjóðanda fyrir forsetakosningarnar. Fyrri umferð þeirra fer fram 23. apríl en nánast fullvíst þykir að enginn frambjóðandi fái yfir helming atkvæða og því verði kosið á milli tveggja efstu 7. maí 2017.

Skoðanakannanir benda til þess að Marine Le Pen komist í aðra umferð en muni tapa þar fyrir Fillon. Frambjóðandi Front National hefur aðeins einu sinni áður komist í aðra umferð en það var árið 2002 þegar hann mætti Jacques Chirac. Sá síðarnefndi var kjörinn forseti með miklum yfirburðum en undanfarin ár hefur þjóðernisflokkur Le Pen unnið mjög á meðal frönsku þjóðarinnar. 

Ef Valls tilkynnir um framboð til forsta verður hann að segja af sér sem forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert