Danskur lögreglumaður skotinn

Danskir lögreglumenn standa vörð.
Danskir lögreglumenn standa vörð. Ljósmynd/Skjáskot af vef Berlinske Tidende

Danska lögreglan hefur fyrirskipað að aukið eftirlit verði haft með öllum lögreglustöðvum í landinu eftir að lögreglumaður var skotinn fyrir utan lögreglustöð í hverfinu Albertslund í Kaupmannahöfn í morgun. 

Lögreglumaðurinn særðist alvarlega í árásinni, að því er kemur fram á vef Berlinske Tidende. Svæðið í kringum lögreglustöðina í Albertslund hefur verið girt af. 

Einn var handtekinn eftir skotárásina, grunaður um verknaðinn. 

„Við höfum aukið eftirlit með öllum lögreglustöðvum eftir skotrárásina í Kaupmannahöfn,“ sagði Anders Olesen, varðstjóri lögreglunnar í Mið- og Vestur-Jótlandi

„Það er gert til að tryggja að árásir verði ekki gerðar á stöðvarnar.“

Þetta er í annað sinn á nokkrum mánuðum sem skotið er á laganna verði í Danmörku. 31. ágúst voru tveir lögreglumenn og einn almennur borgari skotnir í Kristjaníu í Kaupmannahöfn.

Uppfært kl. 11:15

Lögreglumaðurinn sem var skotinn er ekki í lífshættu.

„Ástand hans er alvarlegt er læknarnir segja að hann sé ekki í lífshættu,“ segir í fréttatilkynningu frá lögreglunni.

Þar kemur einnig fram að 26 ára maður hafi verið handtekinn, grunaður um verknaðinn.

„Hann hefur áður komið við sögu lögreglunnar og verður á morgun færður fyrir rétt í Glostrup, ákærður fyrir morðtilraun. Allt bendir til þess að árásarmaðurinn hafi verið einn á ferð og framið glæpinn í brjálæði.“

Lögreglumaðurinn er sagður hafa annast hunda lögreglunnar. Fram kemur að hann hafi verið skotinn í höfuðið.

Búið er að hætta sérstöku eftirliti með öllum lögreglustöðvum Danmerkur eftir handtöku hins grunaða árásarmanns.

Ljósmynd/Google Maps
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert