Geta goldið barnaskap Trump dýru verði

Bandaríkin geta goldið barnaskap Donald Trumps, nýkjörins forseta, dýru verði …
Bandaríkin geta goldið barnaskap Donald Trumps, nýkjörins forseta, dýru verði að mati kínverskra stjórnvalda. AFP

Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, er „nýliði í milliríkjasamskiptum“ og verður að læra að reita ekki kínversk stjórnvöld til reiði varðandi málefni á borð við milliríkjaviðskipti og Taívan,“ sögðu kínverskir fjölmiðlar í dag og vöruðu við því að Bandaríkin kunni að gjalda barnaskap Trumps dýru verði.

Símtal Trump og forseta Taívans og þau ummæli sem hann hefur í kjölfarið látið falla um málið á Twitter hafa vakið mikla óánægju í Kína og segja kínverskir fjölmiðar þetta geta skekið það viðkvæma jafnvægi sem náðst hefur milli þessara tveggja efnahagsvelda.

„Að valda núningi og skemma samskipti Bandaríkjanna og Kína mun ekki hjálpa til að við að gera Bandaríkin aftur að stórveldi,“ sagði í leiðaragrein á forsíðu eins helsta málgagns kínverska kommúnistaflokksins. Aðrir kínverskir fjölmiðlar voru á sama máli og var tíðrætt um „vanhæfni hans [Trump] til að halda kjafti“ og fordæmdu „ögranir hans og lygar“, að því er segir í frétt AFP-fréttastofunnar.

Trump sendi frá sér tvenn skilaboð á Twitter eftir að hafa verið gagnrýndur fyrir að hafa tekið á móti hamingjuóskum frá Tsai Ing-wen, forsætisráðherra Taívans, þar sem hann ásakaði  m.a. Kínverja fyrir að lækka gengi gjaldmiðils síns og fyrir skattlagningu á bandarískum vörum.

Kínversk stjórnvöld hafa lítið tjáð sig um málið, en þau beita oft fyrir sig kínverskum fjölmiðlum til að gera stefnu sína ljósa. Í einum kínverska miðlinum sagði að Trump væri að reyna að arðræna önnur ríki með hagsmuni Bandaríkjanna í huga, en þess í stað væri hann ómeðvitað að „eyðileggja núverandi efnahagsfyrirkomulag í heiminum“, sem Bandaríkin högnuðust hvað mest á.

Þá varaði China Daily, sem flytur fréttir á ensku, við því að „nýliðinn í milliríkjasamskiptum“, Trump, verði að gerast hófsamari í hegðun eigi hann ekki að valda „landi sínu kostnaðarsömum ógöngum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert