Kjörmaður ætlar ekki að kjósa Trump

Útlit er fyrir að sögulega margir kjörmenn kjósi þvert á …
Útlit er fyrir að sögulega margir kjörmenn kjósi þvert á vilja flokka sinna. AFP

Einn kjörmanna repúblikana í Texas hefur stigið fram og sagst ekki ætla að kjósa Donald Trump þegar kjörmannaráðið kemur saman til að kjósa forseta Bandaríkjanna. Hann segir að samkvæmt kjörmannakerfinu beri honum að kjósa eftir eigin samvisku. Hún segi honum að Trump sé vanhæfur til að verða forseti.

Bandaríska kosningakerfið byggist á svonefndum kjörmönnum. Þannig kjósa íbúar hvers ríkis forsetann ekki með beinni kosningu heldur fær frambjóðandi sem sigrar í ríkinu tiltekinn fjölda kjörmanna sem er breytilegur eftir stærð ríkisins. Kjörmennirnir koma svo saman eftir kosningar og kjósa forsetann. Fyrir fram er gert ráð fyrir að þeir kjósi í samræmi við flokkshollustu.

Christopher Suprun er einn kjörmannanna 38 sem repúblikanar fengu þegar Trump sigraði í forsetakosningunum í Texas. Í grein sem hann skrifar í New York Times segist hann hins vegar ekki munu kjósa Trump heldur annan repúblikana sem hann telji hæfari. Vísar hann meðal annars til þess að Trump hafi hvatt til ofbeldis gegn mótmælendum á kosningafundum sínum í kosningabaráttunni og tali um hefnd gegn andstæðingum sínum.

„Ég skulda stjórnmálaflokki ekki neitt. Ég skulda börnunum mínum það að skilja eftir þjóð sem þau geta treyst,“ skrifar Suprun sem var einn slökkviliðsmannanna sem kom fyrst á vettvang hryðjuverkarárásarinnar á Pentagon 11. september 2001.

Alls eru kjörmenn 538 en kjörmannaráðið á að koma saman 19. desember í hverju ríki fyrir sig. Trump fékk 306 kjörmenn í forsetakosningunum gegn 232 kjörmönnum Hillary Clinton. Áður höfðu sjö kjörmenn stigið fram og sagst ætla að kjósa gegn flokki sínum en þeir eru allir demókratar. Þeir hyggjast kjósa annan hófsamari repúblikana til að mótmæla Trump.

Afar ólíklegt er talið að svonefndir ótrúir kjörmenn eins og Suprun eigi eftir að hafa áhrif á endanlega niðurstöðu kjörmannaráðsins, jafnvel þó að þeir verði sögulega margir í ár. Aðgerðir kjörmanna eins og Suprun eru umdeildar. Gagnrýnendur segja þær ólýðræðislegar en aðrir benda á að þær sýni fram á ólýðræðislegt eðli hins forneskjulega kjörmannakerfis.

Grein Suprun í New York Times

Umfjöllun The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert