Kosið um Brexit í breska þinginu

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í dag að atkvæðagreiðsla færi fram í breska þinginu annað kvöld um það hvort þingmenn veiti samþykki sitt fyrir því að formlegt úrsagnarferli landsins úr Evrópusambambandinu verði hafið í lok mars.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að tilkynningin komi á óvart enda hafi ríkisstjórn May lagst gegn því að bera málið undir þingið á þeim forsendum að engin skylda væri til þess. Dómstóll komst að þeirri niðurstöðu í haust að ríkisstjórninni bæri að leita eftir samþykki þingsins en þeirri niðurstöðu var áfrýjað til hæstaréttar Bretlands og bíður þar úrlausnar. Búist er við að niðurstaða í málinu liggi fyrir í janúar.

Tilkynningunni hefur verið fagnað bæði af stuðningsmönnum þess að ganga úr Evrópusambandinu og þeim sem vilja vera áfram innan sambandsins. Haft er eftir heimildarmanni á skrifstofu May að með atkvæðagreiðslunni verði látið reyna á það hvort þingmönnum sé alvara þegar þeir segist virða niðurstöður þjóðaratkvæðisins í Bretlandi síðasta sumar þar sem meirihlutinn kaus með því að ganga úr Evrópusambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert