Trump vill ekki nýjar forsetaþotur

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, vill að Bandaríkjastjórn segi upp samningi við bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing um kaup á nýjum farþegaþotum til þess að flytja forseta landsins á milli staða. Samningurinn hljóðar upp á tvær eða fleiri þotur af gerðinni Boeing 747 og er gert ráð fyrir að þær verði afhentar í kringum árið 2024.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að Trump gæti ekki nýtt sér nýju þoturnar nema hann næði endurkjöri í forsetakosningunum 2020. Forsetinn verðandi tjáði sig um málið á samfélagsmiðlinum Twitter í morgun þar sem hann vakti athygli á málinu og sagði kostnaðinn við samninginn allt of mikinn, yfir 4 milljarða dollara. Hætta ætti við pöntunina.

Enn fremur segir í fréttinni að þótt Trump hafi vald til þess að rifta samningnum við Boeing gæti það valdið skattgreiðendum talsverðum kostnaði. Þannig hafi hluta af þeim fjármunum sem eyrnamerktir hafi verið flugvélakaupunum þegar verið varið vegna undirbúnings fyrir hönnun þotanna og þeir fjármunir yrðu ekki endurheimtir kæmi til riftunar.

Forsetaþotan Air Force One.
Forsetaþotan Air Force One. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert