Augun voru sögð lokuð

Hér má sjá myndina af Lee.
Hér má sjá myndina af Lee. Skjáskot/BBC

Nýsjálenskur karlmaður af asískum uppruna kippti sér ekki upp við það þegar vegabréfi hans var hafnað vegna þess að sagt var að augu hans væru ekki opin.

Tölvukerfi umsókna vegabréfa gat ekki klárað umsóknina vegna þess að samkvæmt kerfinu voru augu Richard Lee lokuð þegar þau voru augljóslega opin.

„Þetta var vél. Það er enginn skaði skeður,“ sagði Lee sem gerði lítið úr málinu.

Lee er plötusnúður og verkfræðinemi en hann hafði ætlað að sækja um nýtt vegabréf rafrænt.

„Ég er alls ekki reiður. Ég hef alltaf haft frekar lítil augu og tæknin í þessum geira er frekar nýtilkomin,“ sagði Lee í samtali við Reuters-fréttastofuna.

Lee fæddist í Taívan en ólst upp í Nýja-Sjálandi. Hann stundar nám í Ástralíu og þurfti að endurnýja vegabréfið sitt til að komast aftur þangað eftir jólaleyfi í Nýja-Sjálandi.

Tæplega 20% vegeabréfsumsókna í Nýja-Sjálandi er hafnað vegna þess að samkvæmt tölvukerfi eru augu fólks lokuð. Lee náði á endanum að endurnýja vegabréfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert