Bjóða Trump úkraínska forsetavél

Flutningavél af gerðinni Mriya. Ætli Trump gæti hugsað sér eina …
Flutningavél af gerðinni Mriya. Ætli Trump gæti hugsað sér eina slíka sem forsetavél? Ljósmynd/Antonov

Helsti flugvélaframleiðandi Úkraínu hefur vakið máls á því að Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, vilji e.t.v. kaupa forsetaflugvélina af þeim, eftir að Trump lýsti því yfir í gær að forsetaútgáfa Boeing-flugvélaframleiðandans sé of dýr.

Tillaga Antonov-flugvélaframleiðandans, sem birt var á Twitter, virðist þó hafa verið sett fram í gríni. „@realDonaldTrump kannski væri betra að hugleiða #Antonov flugvél sem forsetavélina?“ sagði í skilaboðunum.

Í Twitter-skilaboðum sem Trump sendi frá sér í gær sagði hann „Boeing er að smíða glænýja 747 -vél fyrir forseta framtíðarinnar, en kostnaðurinn er út úr kortinu, meira en fjórir milljarðar dollara. Segið upp samningnum!“

Boeing sendi síðar frá sér yfirlýsingu um að enginn slíkur samningur væri til og að fyrirtækið hefði einungis hlotið 170 milljóna dollara greiðslu „til að ákvarða færni“ nýs flota af þotum til að flytja forsetann milli landa.

Antonov-flugvélaframleiðandinn er líklega hvað best þekktur fyrir smíði Mriya, stærstu flutningavélar sem framleidd er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert