Breska þingið samþykkti Brexit

AFP

Meirihluti þingmanna í neðri deild breska þingsins samþykkti í dag með þingsályktun áætlun Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um að hefja úrsagnarferli landsins úr Evrópusambandinu. Niðurstaðan er talin mikill sigur fyrir May en tilkynnt var í gær að atkvæðagreiðslan færi fram.

Fram kemur í frétt AFP að 461 þingmaður hafi samþykkt að grein 50 í Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins verði virkjuð í lok mars á næsta ári en með því verður formlegt úrsagnarferli Bretlands úr sambandinu hafið. Samtals greiddu 89 þingmenn atkvæði gegn því.

May hét því að veita þingheimi nánari upplýsingar síðar um fyrirætlanir sínar áður en grein 50 verður virkjuð. Meirihluti breskra kjósenda samþykkti í sumar í þjóðaratkvæðagreiðslu að segja skilið við Evrópusambandið og hefur ríkisstjórn Bretlands stefnt að því.

Stjórnvöld höfðu upphaflega ekki í hyggju að óska eftir samþykki breska þingsins þar sem þau töldu slíkt samþykki ekki nauðsynlegt. Höfðað var mál fyrir breskum dómstóli sem úrskurðaði í haust að leita þyrfti samþykkis þingsins. Ríkisstjórnin áfrýjaði málinu til hæstaréttar Bretlands og er búist við að niðurstaða hans liggi fyrir í janúar.

Niðurstaðan er ekki lagalega bindandi þar sem ekki er um lagasetningu að ræða. Orðalag þingsályktunarinnar var á þá leið að virða bæri niðurstöðu þjóðaratkvæðisins með því að virkja grein 50 fyrir lok marsmánaðar. Hæstiréttur Bretlands mun fjalla um það hvort ríkisstjórn landsins þurfi lagalega bindandi samþykki þingsins til þess að hefja úrsögnina formlega.

Þeir þingmenn sem greiddu atkvæði gegn því að samþykkja virkjun úrsagnarákvæðisins komu flestir úr Skoska þjóðarflokknum eða 51, 23 þingmenn Verkamannaflokksins gerðu slíkt hið sama og 5 þingmenn Frjálslyndra demókrata. Einn þingmaður Íhaldsflokksins greiddi atkvæði gegn ríkisstjórn flokksins.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert