Búa sig undir fjöldaflótta frá Aleppo

Íbúar ganga um rústir Masaken Hanano hverfisins í austurhluta Aleppo. …
Íbúar ganga um rústir Masaken Hanano hverfisins í austurhluta Aleppo. Stjórnarherinn hefur nú náð 75% austurhlutans úr höndum uppreisnarmanna. AFP

Uppreisnarmenn í austurhluta Aleppo hafa misst gamla bæinn  yfir til sýrlenska stjórnarhersins, að sögn sýrlensku mannréttindavaktarinnar, Syrian Observatory for Human Rights.

Hörð átök hafa verið undanfarnar vikur og hefur stjórnarherinn nú náð um 75% af austurhluta borgarinnar á sitt vald.

 AFP-fréttastofan segir um 80.000 almenna borgara hafa flúið borgarhlutann frá því um miðjan síðasta mánuð. Tugir þúsunda íbúa eru þó enn innilokaðir í þeim borgarhlutum sem enn eru á valdi uppreisnarmanna og segir fréttaritari BBC í Aleppo yfirvöld nú búa sig undir fjöldaflótta fjölskyldna sem reyna að flýja átök uppreisnarmanna og stjórnarhersins.

Gamla borgarvirkið í Aleppo hefur verið á valdi uppreisnarmanna undanfarin fjögur ár. Sýrlenska ríkisfréttastofan Sana segir herinn hafa tekið yfir  Aghiur og Bab al-Hadid hverfin, sem eru norður af gömlu borginni.

Sýrlenska mannréttindavaktin segir harðar árásir hafa verið gerðar á borgarhluta uppreisnarmanna í nót, en 15 manns hið minnsta fórust í árásum stjórnarhersins á austurhlutann í gær.

Matarbirgðir í austurhlutanum eru á þrotum og enginn sjúkrahús eru enn starfhæf, eftir loftárásir undanfarinna mánaða.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands greindi frá því í gær að rússneskur hernaðarráðgjafi sem starfaði með stjórnarhernum hafi fallið fyrir byssuskotum uppreisnarmanna, nokkrum dögum eftir að hann særðist í árás uppreisnarmanna á íbúðabyggð í vesturhluta borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert