Forstjórinn handtekinn vegna flugslyssins

Björgunarsveitur að störfum við flak vélarinnar. 71 fórst er vélinn …
Björgunarsveitur að störfum við flak vélarinnar. 71 fórst er vélinn hrapaði. AFP

Yfirvöld í Bólivíu hafa handtekið forstjóra LaMia-flugfélagsins, sem átti flugvélina sem hrapaði í Kólumbíu í síðustu viku. 71 fórst í slysinu og þeirra á meðal voru starfsmenn og flestir leikmenn brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoense.

Gustavo Vargas, forstjóri LaMia, var handtekinn í gær í tengslum við rannsókn á flugslysinu. Flugvélin varð eldsneytislaus er hún var á leið til Kólumbíu með liðsmenn Chapecoense að því er greint er frá á fréttavef BBC.

Celia Castedo, yfirmaður á flugvellinum í Bólivíu, hefur greint frá því að hún hafi varað flugmanninn við því að hann hefði mögulega ekki nóg eldsneyti og að hún hafi vakið máls á þessu við flugvallaryfirvöld áður en vélin fékk loftferðaleyfi.

Castedo hefur nú óskað eftir hæli í Brasilíu, en hún segist hafa fengið hótanir og orðið fyrir áreiti eftir að hún greindi frá þessu.

Chapecoense var á leið til Medellin í Kólumbíu þar sem liðið átti að leika fyrri leik sinn gegn Atletico Nacional í úrslitum Suður-Ameríkubikars félagsliða í síðustu viku. Liðsmenn Atletico Nacional ákváðu eftir slysið að gefa leiki sína gegn Chapecoense og eftirláta þeim titilinn. Brasilíska liðið var úrskurðað sigurvegari á mótinu á mánudag.

LaMia-flugfélagið var upphaflega skráð í Venesúela, en flutti höfuðstöðvar sínar svo til Bólivíu. Einungis þrjár flugvélar voru í eigu félagsins og þar af voru tvær í starfhæfu ástandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert