Lögreglumaðurinn lést af sárum sínum

Frá vettvangi í gær.
Frá vettvangi í gær. ​Skjá­skot af vef Berl­in­ske Tidende

Danski lögreglumaðurinn sem var skotinn í höfuðið fyr­ir utan lög­reglu­stöð í hverf­inu Al­bert­s­lund í Kaup­manna­höfn í gærmorgun er látinn.

„Snemma í gær var staðan metin þannig að hann væri ekki í lífshættu. Seint í gær komu því miður upp aðrar aðstæður,“ kom fram í yfirlýsingu frá dönsku lögreglunni.

Lög­reglumaður­inn er sagður hafa ann­ast hunda lög­regl­unn­ar. 26 ára gamall maður var handtekinn grunaður um verknaðinn. Hann hefur áður komið við sögu lögreglu en allt bendir til að árásarmaðurinn hafi verið einn á ferð og framið glæpinn í brjálæði.

Árásarmaðurinn var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald og verður hann látinn gangast undir geðmat. Saksóknari hefur greint frá því að árásarmaðurinn hafi áður sagt móður sinni að hann langaði að skjóta lögreglumann.

Hann var dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir fjórum árum fyrir að skjóta í átt að lögreglumanni með loftbyssu á sömu lögreglustöð.

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði í yfirlýsingu að hann væri harmi sleginn vegna málsins.

Frétt mbl.is: Danskur lögreglumaður skotinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert