Telja BBC hafa meitt æru konungs

Kona heldur á mynd af Maha Vajiralongkorn sem var krýndur …
Kona heldur á mynd af Maha Vajiralongkorn sem var krýndur konungar 1. desember. AFP

Taílensk yfirvöld rannsaka nú breska ríkisútvarpið BBC vegna umfjöllunar þess um nýkrýndan konung landsins. Konungssinnar eru hneykslaðir á því sem þeir telja ærumeiðingar í garð konungsins en BBC sagði meðal annars frá því að hann væri þrífráskilinn.

Meiðyrðalöggjöf Taílands er ein sú strangasta í heimi og verndar konungsfjölskylduna fyrir hvers kyns gagnrýni. Lögunum hefur verið beitt til að fangelsa fjölda gagnrýnenda og hafa þau leitt til sjálfsritskoðunar fjölmiðla, fræðimanna og listamanna.

Nú er það umfjöllun BBC um Maha Vajiralongkorn, nýjan konung Taílands, sem hefur reitt konungssinna til reiði. Í grein um konunginn sem birtist á taílensku en var unnin í höfuðstöðvum BBC í London var meðal annars fjallað um einkalíf konungsins sem er vel þekkt innanlands en sjaldan frá því greint í fjölmiðlum, þar á meðal þeirri staðreynd að hann á þrjú misheppnuð hjónabönd að baki.

Þekktur andófsmaður var handtekinn um helgina fyrir að deila BBC-fréttinni á Facebook. Honum var sleppt gegn tryggingu en á yfir höfði sér fimmtán ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur um að hafa hallmælt konungi.

Lögreglan fór að skrifstofu BBC í Bangkok í dag vegna rannsóknarinnar en kom að lokuðum dyrum. Fulltrúi lögreglunnar segir rannsóknina í gangi. Samkvæmt taílenskum lögum verður lögreglan að rannsaka ef tilkynning kemur um hugsanlegt brot á meiðyrðalöggjöfinni. Hver sem er getur sent slíkar tilkynningar.

Fréttaþjónusta BBC á taílensku er ein af fáum sem birta tiltölulega óritskoðaðar fréttir á tungumálinu. Þeim er ritstýrt og þær birtar af ritstjórn í London en nokkrir starfsmenn eru í Bangkok. Önnur ritstjórn sér um fréttaflutning BBC frá Taílandi á ensku.

„Þar sem þeir eru með skrifstofur í Taílandi og taílenskir blaðamenn vinna þar verður að sækja þá til saka þegar þeir brjóta taílensk lög,“ segir Prayut Chan-O-Cha, foringi herforingjastjórnar Taílands, um rannsóknina á BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert