Gíraffar á lista yfir viðkvæmar tegundir

AFP

Umtalsverð fækkun gíraffa í heiminum undanfarna þrjá áratugi þýðir að gíraffar eru komnir á lista yfir viðkvæmar dýrategundir. Það þýðir að hætta sé á að tegundin eigi á hættu að komast á lista yfir dýr í útrýmingarhættu.

Nýfæddur gíraffi.
Nýfæddur gíraffi. AFP

Árið 1985 voru alls 155 þúsund gíraffar í heiminum en í fyrra voru þeir aðeins 97 þúsund talsins, samkvæmt upplýsingum frá náttúruverndarsamtökunum International Union for the Conservation of Nature (IUCN). 

BBC segir að gíröffum hafi fækkað meðal annars vegna fækkunar kjörlendis, veiðiþjófa og borgarastyrjalda á mörgum svæðum í Afríku. 

AFP

Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að flokkunarfræðilega tilheyrir gíraffinn ættbálki klaufdýra (Artiodactyla) og ættinni Giraffidae, en aðeins ein önnur dýrategund er í þeirri ætt, ókapinn (Okapia Johnston) sem finnst í þéttum skógum í Mið-Afríku. Gíröffum hefur verið skipt niður í níu deilitegundir og lifa þær allar sunnan Sahara í Afríku. Skipting tegundarinnar í deilitegundir byggist fyrst og fremst á mynstri deplanna á feldi dýranna og formum hornanna. Sumar deilitegundir gíraffa hafa tvö stutt horn á kollinum en aðrar eru með fjögur stutt horn. Hjá nyrstu deilitegundinni er að finna útvöxt á beini milli augntóftanna sem er ámóta langur og hornin. Mynstrið á feldi gíraffa er einstaklingsbundið líkt og fingraför okkar mannfólksins og hægt er að þekkja einstaklinga hvern frá öðrum á sérkennum í mynstri deplanna á feldinum. Fax vex niður eftir miðlægum hnakka gíraffans.

AFP

Gíraffar eru hjarðdýr á hitabeltisgresju og staktrjársléttum Afríku. Þeir eru jurtaætur, aðalfæða þeirra eru lauf af akasíutré (Acacia giraffae) sem vex víða í Afríku. Stærstu karldýrin þurfa allt að 80 kg af laufi á dag. Gíraffar eru hjarðdýr og er fjöldinn í hverri hjörð oftast 12-15 dýr, og samanstendur yfirleitt af karldýri sem er foringi hjarðarinnar, nokkrum kvendýrum, kálfum og ókynþroska karldýrum. Atferli kynjanna er ólíkt þegar þau standa á beit og hægt er að greina kynferði þeirra á því. Karldýrin teygja sig oftar eftir laufum sem vaxa hátt á trjánum, en kvendýrin eru gjarnari við að beygja sig eftir laufblöðum sem liggja neðarlega.

AFP

Gíraffar eru mjög spretthörð dýr miðað við vaxtarlag, geta náð allt að 48 km/klst. hraða á flótta. Kýrin ber eitt afkvæmi í einu og er meðgöngutíminn 14-15 mánuðir. Líkt og hjá öðrum dýrum sem skipa svipaðan vistfræðilegan sess í náttúrunni, eru afkvæmi gíraffans mjög bráðþroska. Afkvæmið getur fylgt móður sinni strax rúman hálftíma eftir burð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert