Húsið lyktaði af þvagi og saur

Lögregla að störfum í Texas.
Lögregla að störfum í Texas. AFP

Sjö fatlaðir unglingar, sem voru í fóstri á heimili í Texas, voru oft læstir inn í skáp tímunum saman. Þeir fengu baunir og hrísgrjón að borða, voru því vannærðir og fengu ekki að ganga í skóla.

Þetta er meðal þess sem blasti við lögreglumönnum og starfsmönnum barnaverndaryfirvalda á heimili konu á sextugsaldri sem hafði ættleitt börnin. Konan var handtekin, sem og karlmaður sem bjó á heimilinu. Börnin eru nú komin í fóstur á nýjum stað.

Í ítarlegri umfjöllun bandarísku fréttastofunnar CNN kemur fram að aðstæður á heimili barnanna hafi verið skelfilegar. Börnin voru á aldrinum 14-16 ára, fimm strákar og tvær stúlkur. Í yfirlýsingu frá lögreglustjóranum á svæðinu segir að fólkið hafi nýtt sér stöðu sína á kostnað barna sem gátu engan veginn borið hönd fyrir höfuð sér.

Verða ákærð fyrir ofbeldið

Lögreglan var kölluð að heimilinu í lok nóvember eftir að barnaverndaryfirvöld höfðu gert henni viðvart um ástandið. Þar var fólkið handtekið, 54 ára kona og 78 ára karl. Konan hafði ættleitt börnin en bjó með þau á heimili mannsins. Í frétt CNN segir að fólkið eigi yfir höfði sér ákæru fyrir að hafa numið börnin á brott og fyrir að hafa valdið þeim líkamstjóni.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar þurftu börnin oft að dvelja inni í smáum skáp á meðan konan fór með manninn á sjúkrahús. Þá voru börnin lamin með róðrarspaða. Búið var að fjarlægja hurðarhúna af útidyrum og skápum og þess í stað búið að koma þar fyrir hengilásum.

Konan fékk greiðslur mánaðarlega vegna hvers barns sem hún tók að sér. Öll voru þau með sérþarfir og að minnsta kosti eitt var með Downs-heilkenni.

Konan hafði fengið börnin í fóstur en ættleitt þau ásamt eiginmanni sínum árin 2003 og 2004. Eiginmaðurinn var ekki á heimilinu þar sem börnin bjuggu og hefur ekki verið ákærður í málinu.

Í frétt CNN segir að þegar fólk vilji ættleiða börn í Texas þurfi það að gangast undir ítarlega skoðun og eftirlit.

Hjónin ættleiddu m.a. sjö ára gamlan dreng sem lést árið 2011. Dauðsfallið var rannsakað og var það niðurstaðan að drengurinn hefði látist af eðlilegum orsökum.

Fyrir tveimur árum flutti konan með börnin inn á heimili mannsins í Richmond. Er barnaverndarstarfsmenn heimsóttu hana og börnin í nóvember brá þeim í brún og höfðu þegar samband við lögregluna. Húsið lyktaði af þvagi og saur og börnin voru mjög illa til fara. Í húsinu rak konan einnig sambýli fyrir fullorðna. Einn mannanna sem þar bjó segir að húsið hafi verið eins og fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert