Stórt skref í átt að sigri

Forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, segir að sigur í Aleppo sé risastórt skref í átt að stríðslokum í Sýrlandi. Borgarastríð hefur geisað í landinu í meira en fimm ár og nokkur hundruð þúsund almennir borgarar hafa látist í stríðinu og milljónir hafa þurft að flýja heimili sín.

Undanfarnar þrjár vikur hefur stjórnarherinn náð sífellt fleiri hverfum í Aleppo á sitt vald á nýjan leik og er talið að um 80% borgarinnar séu undir yfirráðum hersins. Fjölmargir, þar á meðal Bandaríkin, Bretland og Frakkland, hafa farið fram á að komið verði á fimm daga vopnahléi í borginni svo hægt verði að koma neyðarvistum til almennra borgara.

Aleppo.
Aleppo. AFP

Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, John Kerry, og Rússlands, Sergei Lavrov, ætla að hittast á fundi í Hamborg í Þýskalandi í dag til þess að ræða um mögulegt vopnahlé í Aleppo en Rússar eru helstu bandamenn Sýrlandsstjórnar í baráttunni við stjórnarandstæðinga.

Að sögn framkvæmdastjóra Save the Children í Sýrlandi, Sonia Khush, eru tugir þúsunda barna skotmörk í átökunum í borginni og þrátt fyrir tæplega sex ára stríð sé alþjóðasamfélagið reiðubúið að sitja hjá. 

Samkvæmt upplýsingum frá mannúðarsamtökunum Syrian Observatory for Human Rights voru 19 almennir borgarar drepnir í árásum stjórnarhersins í austurhluta Aleppo í gær. 

Í viðtali við sýrlenska dagblaðið Al-Watan í dag segir Assad að sigur gegn uppreisnarmönnum í Aleppo sé sigur fyrir stjórnina en stjórnin verði að vera raunsæ – þetta þýði ekki endalok stríðsins. „En þetta verður stórt skref í átt að lokum stríðsins,“ segir Assad. Spurður um mögulegt vopnahlé segir hann að það sé eðlilega ekki í gildi.

Aleppo.
Aleppo. AFP

Fyrir stríðið var Aleppo vagga menningar og viðskipta í Sýrlandi en eftir að stríðið braust út í borginni fyrir fjórum árum skiptist borgin í tvennt – stjórnarandstæðingar náðu völdum í austri og stjórnarherinn hélt völdum í vestri. 

Í viðtalinu í dag segir Assad að stríðinu ljúki ekki fyrr en búið verði að útrýma öllum hryðjuverkamönnunum. „Hryðjuverkamennirnir eru til staðar annars staðar – jafnvel eftir að við ljúkum við Aleppo munum við halda áfram stríðinu gegn þeim,“ segir Assad í viðtalinu.

Sýrlenskir hermenn í al-Saar-hverfinu sem þeir hafa náð á sitt …
Sýrlenskir hermenn í al-Saar-hverfinu sem þeir hafa náð á sitt vald að nýju. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert