Ekkert lát á sprengjuregninu

Sýrlenski stjórnarherinn hefur látið sprengjum rigna yfir hverfi sem eru undir yfirráðum stjórnarandstæðinga í Aleppo í dag þrátt fyrir að Rússar hafi tilkynnt formlega um tímabundið vopnahlé í borginni.

Hlé var gert á loftárásum í borginni í nótt en ekkert lát var á sprengjuregninu á jörðu niðri í alla nótt og í morgun, að sögn talsmanna mannúðarsamtakanna Syrian Observatory for Human Rights. 

Fréttamaður AFP sem er staddur í hverfi sem er undir yfirráðum stjórnarandstæðinga segir að sprengjugnýrinn hafi verið viðvarandi í alla nótt.

Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, greindi frá vopnahléinu af mannúðarástæðum í gærkvöldi. Með því átti að auðvelda fólki sem er lokað inni á vígvelli borgarinnar að komast undan. Að sögn Lavrov á að flytja átta þúsund almenna borgara á brott. Stjórnarherinn hefur náð yfirráðum yfir stórum hluta borgarinnar eða alls 75% af austurhlutanum sem uppreisnarmenn hafa ráðið yfir síðustu fjögur ár.

Fréttamaður BBC tekur undir með fréttamanni AFP og segir að þrátt fyrir að dregið hafi úr loftáárásum þá geisi enn bardagar í borginni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert