Fannst á lífi tveimur vikum eftir hrap

Hermaður, sem fannst á lífi fljótlega eftir að þyrlan hrapaði, …
Hermaður, sem fannst á lífi fljótlega eftir að þyrlan hrapaði, fluttur á sjúkrahús. Félagi hans fannst ekki fyrr en tveimur vikum síðar. AFP

Hermaður, sem var um borð í þyrlu sem hrapaði fyrir tveimur vikum í frumskógi í Indónesíu, hefur fundist á lífi.

Yohanes Syahputra fannst síðdegis í gær. Það voru íbúar í þorpi á eyjunni Borneo sem gengu fram á hann. Syahputra var örmagna en á lífi.

„Við þökkum guði fyrir að hafa fundið einn af farþegum þyrlunnar á lífi,“ segir Sabrar Fadhilah, talsmaður hersins, við AFP-fréttastofuna. Maðurinn var meiddur á höndum, kviði og fótum og veikburða þar sem hann hafði ekkert borðað dögum saman.

Syahputra var um borð í þyrlunni ásamt fjórum öðrum er samband rofnaði við hana 24. nóvember. Var þyrlan þá yfir frumskógum Borneo, nálægt landamærunum að Malasíu.

Þrír fundust látnir á vettvangi og einum var bjargað skömmu eftir hrapið. Hins vegar var Syahputra þá hvergi að finna.

Bóndi kom að hermanninum sofandi í kofa í útjaðri akurs síns. Þar hafði hann haldið til og borðað sykurreyr til að halda sér á lífi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sambærilegt á sér stað eftir flugslys í Indónesíu. Í fyrra fannst maður á lífi, nakinn og fljótandi í vatni í gíg eldfjalls á Súmötru. Það var tveimur dögum eftir að þyrla sem hann var um borð í hafði hrapað.

Þyrluslys eru nokkuð algeng í Indónesíu. Í mars létust tólf er herþyrla hrapaði í slæmu veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert