Fólskuleg árás í Berlín

Frá Berlín.
Frá Berlín. AFP

Myndskeið gengur nú um veraldarvefinn en þar má sjá mann sparka í bakið á konu í neðanjarðarlestarstöð í Berlín með þeim afleiðingum að hún fellur kylliflöt niður stiga. 

Konan slasaðist við þessa óvæntu árás og lögregla í Þýskalandi biðlar til almennings um að hjálpa sér að finna árásarmanninn.

Eftirlitsmyndavélar á Hermannstraße-stöðinni í Berlín náðu myndskeiði af atburðinum sem átti sér stað 27. október síðastliðinn. Þar sést óþekktur maður skyndilega sparka 26 ára konu niður stiga. Nokkrir félagar mannsins yfirgefa svæðið áhyggjulausir að sjá eftir árásina.

Lögregla veit ekki hver ástæðan fyrir árásinni var og grunar að hún hafi verið tilhæfislaus.

Vegfarendur hjálpuðu konunni á fætur og var hún keyrð á sjúkrahús þar sem gert var að sárum hennar. Síðar lagði hún fram kæru vegna árásarinnar.

Lögregla lýsti opinberlega eftir manninum á þriðjudag og síðan þá hafa nokkrar ábendingar borist, sem lögregla vonar að verði til þess að hún hafi uppi á árásarmanninum.

Myndskeið af árásinni má sjá hér að neðan:

Frétt SVT.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert