Samþykkja embættissviptingu

Mótmælendur fögnuðu niðurstöðu þingsins í dag.
Mótmælendur fögnuðu niðurstöðu þingsins í dag. AFP

Þingmenn í Suður-Kóreu samþykktu við atkvæðagreiðslu í dag að svipta forseta landsins, Park Geun-hye, embætti í tengslum við spillingarmál. 

Alls greiddu 234 þingmenn atkvæði með tillögunni en 56 voru á móti. Það þýðir að einhverjir þingmenn úr flokki Park greiddu atkvæði með því að hún yrði svipt embætti. Vald forseta er því komið tímabundið í hendur forsætisráðherra landsins.

 Park Geun-Hye, forseti Suður-Kóreu, sagði fyrir nokkru að hún væri tilbúin að láta af embætti vegna spillingarmáls sem hefur orðið til þess að hundruð þúsunda manna hafa safnast saman á götum Seoul síðustu helgar til að krefjast afsagnar hennar.

Trúnaðarvinkona forsetans, Choi Soon-Sil, uppnefnd „Raspútín Kóreu“, er sökuð um að hafa notfært sér samband þeirra til að knýja fram fjárframlög að andvirði sjö milljarða króna frá fyrirtækum, m.a. Samsung, til stofnunar sem hún stjórnar. Forsetinn hefur réttarstöðu grunaðs manns vegna rannsóknar málsins og er þetta í fyrsta skipti í sögu landsins sem sitjandi forseti þess á yfir höfði sér saksókn. Ekki er þó hægt að sækja Park til saka vegna málsins nema hún láti af embætti.

Park sagði undir lok nóvember að hún vildi láta þingið um að ákveða hvort hún ætti að biðjast lausnar. „Ég segi af mér um leið og þingið hefur komið sér saman um ráðstafanir til að tryggja að valdaskipti geti orðið með sem minnstri hættu á valdatómarúmi og glundroða í stjórnsýslunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert