Hóstaði og kúgaðist í aftökunni

Fanginn var dæmdur fyrir vopnað rán og morð árið 1994. …
Fanginn var dæmdur fyrir vopnað rán og morð árið 1994. Aftakan tók 34 mínútur. AFP

Fangi, sem var á dauðadeild fangelsis í Alabama, fékk hóstakast og krampa er verið var að taka hann af lífi á fimmtudagskvöld. Lögmenn hans höfðu ítrekað reynt að fá aftökunni frestað, m.a. með tilliti til þess að þeir töldu að lyfin, sem notuð eru til að aflífa fanga sem dæmdir hafa verið  til dauða, séu ekki örugg. Í frétt CNN um málið segir að maðurinn hafi hóstað og kúgast í um þrettán mínútur eftir að hafa fengið fyrstu sprautuna af þremur.

Fanginn hét Ronald B. Smith. Hann var í hópi bandarískra fanga sem hafa gagnrýnt nýjustu breytingar sem gerðar hafa verið á lyfjablöndunni sem notuð er til að taka fanga af lífi. Breytingin var gerð eftir að lyfjaframleiðendur höfðu takmarkað aðgengi og framleiðslu á lyfjum sem áður voru notuð.

Smith var dæmdur fyrir vopnað rán og morð á afgreiðslumanni sem hann framdi árið 1994.

Aftakan tók í heildina 34 mínútur, þ.e. frá því að hann fékk fyrstu sprautuna og þar til hann var úrskurðaður látinn.

Blaðamaður AL.com sem var viðstaddur aftökuna segir að í þrettán mínútur hafi Smith átt erfitt með að ná andanum, hann hafi hóstað og kúgast. Þá hafi hann kreppt vinstri hnefann. Einnig segir blaðamaðurinn, sem sagði frá aftökunni m.a. á Twitter, að vinstra auga Smiths hafi verið opið annað slagið.

Þetta átti sér stað eftir að hann fékk fyrstu sprautuna. Starfsmaður á vegum fangelsisins þarf að ganga úr skugga um að fanginn sé meðvitundarlaus áður en hann fær hinar tvær sprauturnar. Meðvitund hans var könnuð tvisvar, m.a. með því að klípa hann. Hann hóstaði og reyndi að ná andanum eftir fyrstu könnunina og við þá síðari hreyfði hann hægri handlegginn. Að lokum voru honum gefnar hinar tvær sprauturnar sem stöðvuðu hjarta hans og öndun.

Yfirmaður fangelsisins segir að krufning verði gerð sem leiða muni í ljós hvort einhverjar „ójöfnur“ hafi átt sér stað við aftökuna. Hann segir 30 mínútur ekki óeðlilega langan tíma í aftöku. Þó að Smith hafi um tíma hóstað hafi hann ekki verið með meðvitund.

Lögmönnum Smiths tókst að fá aftökunni frestað tvisvar en Hæstirétti heimilaði hana að lokum.

Ítarleg frétt CNN um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert